«

»

Molar um málfar og miðla CIV

 Beyingakerfi tungunnar á í vök  að verjast. Um það ber vitni  fyrirsögn fréttar í Vefvísi (09.07.2009): Frá Reykjavík til Akureyri á tólf tímum. Meira af Vefvísi þar sem aðilar lifa  góðu lífi:  … en þar rétt hjá búa nokkrir aðilar af austur-evrópskum uppruna.

Aftur og aftur falla fréttamenn í  sömu, gömlu pyttina. Í hádegisfréttum RÚV (09.07.2009) var sagt: .. það gerðu þeir síðasta  föstudag. Þetta er enskt orðalag, – last  Friday. Á íslensku segjum  við á  föstudaginn var.

Skemmtileg frétt um  nýja áhorfendastúku  og knattspyrnuvöll í Sandgerði var í Mogga (09.07.2009): Þar segir:  Um leið var tekinn í notkun endurbættur grasvöllur. Völlurinn var færður til suðurs og grasið endurnýjað. Stúka og völlur  reyndust vel í fyrsta leik því  Reynir sigraði Tindastól. Ekki er öldungis víst að  lið Tindastóls taki undir þetta  !

Blogg Jónasar Kristjánssonar er yfirleitt á mjög  góðu máli, þótt orðbragðið sé  á  stundum  í það grófasta. En  Jónas er ekki óskeikull frekar en við hin. Þannig skrifar hann á  bloggi sínu (10.07.2009): Tímafrekt, innihaldsrýrt og óráðlegt er að hafa tvær kosningar, hér á auðvitað að standa tvennar kosningar. En innihaldinu er  ég sammála.

 Notkun  ensku í  auglýsingum í íslenskum  blöðum fer vaxandi. Í  Fréttablaðinu (09.07.2009) er auglýsing  frá versluninni Birnu að Skólavörðustíg  2 , sem  segist vera  concept shop, – hvað sem það nú er ! Í auglýsingunni  er   risafyrirsögn , — á  ensku: SALE UP TO 70%. Vísað er á  vefsíðu fyrirtækisins, sem er  á  ensku.  Það er eins og þessi verslun  sé  ekki ætluð Íslendingum.  Hversvegna þá  að  vera  að eyða peningum í að  auglýsa í íslensku  dagblaði?  Þetta  er bara enn eitt  dæmið um hallærislegt enskusnobb.

Leyfi mér að birta hér  ágæta  athugasemd  Árna Gunnarssonar við  síðustu Mola:

Og nú í kvöldfréttatíma ríkissjónvarpsins kom innsláttur frá spjalli fréttakonu við Ólaf Guðmundsson frá Umferðarstofu (held ég). Þau voru stödd á þjóðv. 1 í Svínahrauni og ræddu um vegriðið: „Nú kalla ökumenn mótorhjólanna þetta fyrir ostaskera“ sagði fréttakonan á máli leikskólabarnanna. Dálítið merkilegt málfar sem tíðkast á þessum fréttastofum núorðið.

Já, það er rétt ,Árni,  barnamál verður æ algengara í fréttum. Aftur og  aftur  sér maður eða heyrir  orðfæri smábarna  eins og  að klessa á í fréttum.   

8 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Haraldur Bjarnason skrifar:

    Orðið aðili virðist sérstaklega kennt nemum í lögfræði og í lögregluskólanum. Þeir nota þetta orðskrípi um fólk í tíma og ótíma. Aðili er eitt af þeim orðum sem Árni Böðvarsson fyrrum málfarsráuðunautur RÚV kallaði hortitti í íslensku máli og hann vildi ekki heyra í útvarpi enda óþarft.

  2. Eygló skrifar:

    Fyrir allnokkrum árum bárust fréttir af skæðu óhappi úti í geimi. Skutla minnir mig að það hafi verið sem rakst á geimstöðina. Þótt ég muni ekki atvikið í smáatriðum þá MAN ÉG FRÉTTINA Í RÚV: GEIMFARIÐ KLESSTI Á GEIMSTÖÐINA……  ALLIR FÓRU GEIMFARARNIR Í LÆKNASKOÐUN. Ég hló mikið að tilhugsuninni um að geimfararnir hefðu lent og byrjað á því að virða fyrir sér heila læknasveit 🙂

  3. Sigurður skrifar:

    „Nú kalla ökumenn mótorhjólanna þetta fyrir ostaskera“ Þetta er hrein og tær danska!

    S

  4. Eygló skrifar:

    Púkar eru alltaf viðsjárverðir. Hef oft staðið minn að lélegum vinnubrögðum, svipuð þessum.

  5. Eiður Guðnason skrifar:

    Innsláttarvilla, –  að  sjálfsögðu.  Valt  er að  treysta Púka ! Beygingakerfi.

  6. Eygló skrifar:

    Látið ekki svona. Höfuðborg Kína heitir Beijing.

  7. Jónína skrifar:

    Tek undir þetta með þér, óþolandi hversu margir eru hræddir við að beygja orð og nöfn, nota ranga orðaröðun s.s að hafa persónufornöfn fremst í setningu o.s.frv.   Þá finnst mér óþolandi þegar sagt er „mikið af fólki“ í stað þess að segja „margt fólk“

    Smá ábending í lokin:  orðið sem þú notar fremst í bloggi þínu á að stafsetja beyging, ekki beying…..eða er þetta kannski bara innsláttarvilla?

  8. Ómar Ragnarsson skrifar:

    Björgvin Halldórsson er skrifaður fyrir mörgu hnyttnu og skemmtilegu. Eitt af því var það að segja að maður væri „að fara til Akureyris“ sem var háðsk ádeila á það að geta ekki farið rétt með beyginguna á nafninu.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>