Beyingakerfi tungunnar á í vök að verjast. Um það ber vitni fyrirsögn fréttar í Vefvísi (09.07.2009): Frá Reykjavík til Akureyri á tólf tímum. Meira af Vefvísi þar sem aðilar lifa góðu lífi: … en þar rétt hjá búa nokkrir aðilar af austur-evrópskum uppruna.
Aftur og aftur falla fréttamenn í sömu, gömlu pyttina. Í hádegisfréttum RÚV (09.07.2009) var sagt: .. það gerðu þeir síðasta föstudag. Þetta er enskt orðalag, – last Friday. Á íslensku segjum við á föstudaginn var.
Skemmtileg frétt um nýja áhorfendastúku og knattspyrnuvöll í Sandgerði var í Mogga (09.07.2009): Þar segir: Um leið var tekinn í notkun endurbættur grasvöllur. Völlurinn var færður til suðurs og grasið endurnýjað. Stúka og völlur reyndust vel í fyrsta leik því Reynir sigraði Tindastól. Ekki er öldungis víst að lið Tindastóls taki undir þetta !
Blogg Jónasar Kristjánssonar er yfirleitt á mjög góðu máli, þótt orðbragðið sé á stundum í það grófasta. En Jónas er ekki óskeikull frekar en við hin. Þannig skrifar hann á bloggi sínu (10.07.2009): Tímafrekt, innihaldsrýrt og óráðlegt er að hafa tvær kosningar, hér á auðvitað að standa tvennar kosningar. En innihaldinu er ég sammála.
Notkun ensku í auglýsingum í íslenskum blöðum fer vaxandi. Í Fréttablaðinu (09.07.2009) er auglýsing frá versluninni Birnu að Skólavörðustíg 2 , sem segist vera concept shop, – hvað sem það nú er ! Í auglýsingunni er risafyrirsögn , — á ensku: SALE UP TO 70%. Vísað er á vefsíðu fyrirtækisins, sem er á ensku. Það er eins og þessi verslun sé ekki ætluð Íslendingum. Hversvegna þá að vera að eyða peningum í að auglýsa í íslensku dagblaði? Þetta er bara enn eitt dæmið um hallærislegt enskusnobb.
Leyfi mér að birta hér ágæta athugasemd Árna Gunnarssonar við síðustu Mola:
Og nú í kvöldfréttatíma ríkissjónvarpsins kom innsláttur frá spjalli fréttakonu við Ólaf Guðmundsson frá Umferðarstofu (held ég). Þau voru stödd á þjóðv. 1 í Svínahrauni og ræddu um vegriðið: „Nú kalla ökumenn mótorhjólanna þetta fyrir ostaskera“ sagði fréttakonan á máli leikskólabarnanna. Dálítið merkilegt málfar sem tíðkast á þessum fréttastofum núorðið.
Já, það er rétt ,Árni, barnamál verður æ algengara í fréttum. Aftur og aftur sér maður eða heyrir orðfæri smábarna eins og að klessa á í fréttum.