«

»

Molar um málfar og miðla CV

 Það er einkar vafasöm fagmennska hjá Ríkisútvarpinu, þegar það er fyrsta frétt (11.07.2009) í hádegisútvarpi, að  þingmaður  Sjálfstæðisflokks segi kostnaðaráætlun (990 milljónir á þremur árum) vegna aðildarumsóknar að ESB  sé brellupólitík og blekkingar, marklaust plagg. Þetta hefði  verið frétt, ef þingmaðurinn hefði  stutt  fullyrðingu sína  rökum, – það gerði þingmaðurinn ekki. Þetta var venjubundinn pólitískur sleggjudómur og  RÚV féll í pyttinn. Það er  svo hinsvegar annað mál, að með þessari  fullyrðingu er þingmaður  Sjálfstæðisflokksins að segja að  starfsfólk utanríkisráðuneytisins,sem  gerði umrædda kostnaðaráætlun, kunni ekki til verka og sé  að  búa til brellupólítík fyrir  ríkisstjórnina. Það finnst mér vera  alvarleg ásökun.

 Svolítið meira um RÚV

 Engu er líkara þar á bæ  sé  markvisst verið að efla ensk áhrif á  tunguna. Í Molum  CIV var að því  vikið að  talað  hefði verið um  síðasta  föstudag, þegar segja hefði átt á  föstudaginn var. Í hádegisfréttum (11.07.2009)   var á sama hátt talað um  síðasta haust ,(e.. last  fall.) Á íslensku segjum  við í fyrrahaust, –  ekki síðasta haust.

Af rælni og til reynslu  hef ég  gerst áskrifandi  að DV. Það er ekki vegna þess að DV sé  fullt af  góðu efni. Í DV er fullt af rusli sem ég hef ekki minnsta áhuga á. Í DV  eru hinsvegar oft fréttir,sem  aðrir  fjölmiðlar hafa ekki birt, ekki sist  fréttir af sukkinu og spillingunni  meðal  útrásarvíkinga og  um höfuðpaurana ,sem  réðu ríkjum þegar útrásin  stóð sem  hæst.  Svo er líka skemmtiefni í DV. Í helgarblaðinu (10.-12.07.2009) eru álitsgjafar, svokallaðir,  fengnir til að velja  tuttugu gáfuðustu Íslendingana.

 Það var gaman að sjá að í hópnum þessir voru líka nefndir voru Bogi Ágústsson, gamall  samstarfsmaður og vinur og annar fréttamaður  Broddi Broddason hjá RÚV. Báðir stólpagreindir. Ekki var síður skemmtilegt að sjá að í hópi álitsgjafanna , sem völdu gáfuðustu landana  voru  Ágúst Bogason útvarpsmaður og Þorbjörn Broddason, prófessor fyrrum samstarfsmaður og sumarmaður á  Alþýðublaðinu hér í eldgamla daga.  Ég saknaði þess hinsvegar  að Jónas Kristjánsson skyldi ekki vera í hópnum  líka nefndir,  en  svo sá ég  að Pálmi Jónasson,fréttamaður, var ekki í hópi álitsgjafanna.  En þetta er nú kannski  svolítið ótuktarlegt !

1 athugasemd

Ekkert ping ennþá

  1. Haukur Kristinsson skrifar:

    Í Vefmogga í dag er sagt frá skoðunum fjármálaráðherra Hollands, Wouter Bos, varðandi Icesave.

    Og samkvæmt fréttinni segir fjármálaráðherra það svekkjandi að þurfa að treysta á íslenska eftirlitsaðila. Ég skil ekki þessa setningu. Er þetta einhver meinloka hjá mér?

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>