«

»

Molar um málfar og miðla CVI

 Úr Vefvísi (12.07.2009) : Mennirnir komu heilir höldnu niður. Hér notar  skrifari orðatiltæki, sem hann kann ekki með að  fara. Rétt hefði verið að  segja: Mennirnir komust heilu og höldnu niður, það er  án óhappa.

Í DV (14.07.2009) er frétt um mann sem  dæmdur var fyrir kynferðisbrot  gegn 14 ára stúlku.  Fréttinni fylgir mynd  af ungri  stúlku sem heldur  fyrir augu.  Á myndinni er texti þar sem  segir: Mynd tengist fréttinni ekki beint. Réttara  væri að  segja : Mynd  tengist fréttinni  alls ekki, því það sannleikurinn í málinu.  Í sama blaði  eru gefin 30 ráð  til að spara í kreppunni. Gott og vel, en í inngangi  segir: Með ríku hugmyndaflugi og  dassi  af dugnaði ..   Dass af  dugnaði  er ekki íslenska.Það er   hrognamál.  Á ensku er talað um a dash of, –  í merkingunni skvettu  af , eða slurk  af. Dash hefur  annars býsna margar og ólíkar merkingar í ensku.

Rætt var við þingmann  Borgarahreyfingar í hádegisfréttum RÚV (15.07.2009). Í viðtalinu  talaði þingmaðurinn um attitjúd  e.  attitude.  Þetta er  ekki  íslenska. Þetta er enska. Er  til of mikils mælst að  þingmenn sýni  móðurmálinu verðskuldaða  virðingu ? 

Meira um  enskuslettur: Í fyrirsögn í Morgunblaðinu (15.07.2009)  stendur: Damian Taylor túraði Voltu með Björk – Vinnur nú með henni að nýju efni – Algjör stúdíónörd að eigin sögn ek45b Vann við að „leiðrétta“ raddir. Í fréttinni er líka  ýmislegt  skrítið  eins og: …. ferðalagið  hafi verið  skipulagt með það að markmiði að enginn átti á hættu að brenna út.  Fyrirmyndarmálfar,  ekki satt ?

Líklega er það sérviska mín að fella mig  ekki við orðalag umsjónarmanns  morgunútvarps Rásar  eitt eftir morgunbæn.  Á undan og  eftir  morgunbæn heyra  hlustendur  kirkjuklukkum hringt og fer  vel á því.  Ekki fer eins  vel á því, að mínum dómi, að  umsjónarmaður  segi klukkurnar  tilheyra  Hafnarfjarðarkirkju eins og  sagt var i morgun. Miklu fallegra væri að  segja:  Hringt var klukkum Hafnarfjarðarkirkju,  eða: Þetta   voru klukkur  Hafnarfjarðarkirkju.    Með  vaxandi  vinsældum leikskólamáls í  Ríkisútvarpinu  megum   við líklega   þakka  fyrir  meðan  ekki er talað um  dingla  klukkunum sem  tilheyra Hafnarfjarðarkirkju !

Svo er einhvernveginn eins og  Kastljós  ríkissjónvarpsins viti ekki hvort það er í sumarfríi eða ekki !

6 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

     Takk fyrir hvatninguna, félagi Ómar.  Fín saga , Bjarni Dagur. Og örugglega sönn !

  2. Ómar Ragnarsson skrifar:

    Hvernig stendur á því að margir Íslendingar virðast gera miklu minni kröfur til notkunar móðurmálsins í heimalandinu heldur en gerðar eru til kunnáttu og meðferðar móðurmáls í öðrum löndum?

    Meira að segja virðist það orðið svo að hér heima er gerðar séu meiri kröfur til kunnáttu og notkunar á ensku heldur en á eigin móðurmáli.

    Minnimáttarkennd felst ekki í því að gera þær sjálfsögðu kröfu til opinberra fulltrúa almennings, embættismanna og fjölmiðlamanna um að þeir kunni að tala það tungumál sem talað er í þessu landi lögum samkvæmt.

    Minnimáttarkenndin felst þvert á móti í því að telja sig geta aukið á sér álit á því að sýna hvað maður sé klár í erlendum málum.

    Áfram, Eiður !

  3. Bjarni Dagur Jónsson skrifar:

    Sæll Eiður. Ég hef ánægju að því að lesa ábendingar þínar um íslenskt mál. Hér heima er ég sífellt að leiðrétta ungu heimasætuna þegar hún grípur til enskunnar. Henni leiðast ábendingarnar, en þetta lærist. Hún kvartar yfir því að ég sé sífellt að leiðrétta fréttamenn og viðmælendur í útv og sjónv. 

    Fræg er sagan af Árna Óla blaðamanni á Mbl. sem var á ferð í Kaupmannahöfn og óskaði eftir blaðaviðtali við Jón Helgason. Vildi blaðamaðurinn skrifa grein um safnið og starf Jóns við handritarannsóknir. Jón Helgason var vel lesin í Mbl. og hafði sjálfasagt myndað sér skoðun á Árna og var önugur yfir þessari heimsókn.

    Þegar Árni Óla og Jón Helgason svo hittust á skrifstofu Jóns gengu þeir inn í safnið og Jón spurði Árna kurteislega hvað það væroi helst sem hann hefði áhuga á að skoða.

    „Til að byrja með væri gaman….“

    Lengra komst Árni Óla ekki því Jón Helgason snérist á hæli og sagði: „Til að byrja með er dönsku sletta.. og sá sem ekki kann góða íslensku og slettir dönsku á hingað ekkert erindi„ og svo gekk Jón inn á sína skrifstofu og lokaði að sér.

    kv bdj

  4. Bögubósi skrifar:

    Margt er það, sem manni leiðist að sjá – og heyra. Mér fellur til dæmis illa hvernig fólk er farið að tvöfalda stafinn „n“ þar sem það á alls ekki við. Dæmi: Ég fór með kúnna yfir ánna. Ég fór yfir brúnna en missti þó ekki trúnna. Kannski er maður of smámunasamur.

  5. Eiður skrifar:

    Svo þú, Egill Þór, megir öðlast sálarfrið, þá er málið mjög einfalt. Þú skalt hætta að lesa pistlana mína. Þér mun þá örugglega líða betur, – mér líður  alveg  prýðilega á þessum fallega júlímorgni, – í góðu skapi og  sáttur við  guð og menn. Haltu þínum leiðindum og ergelsi bara fyrir þig.

  6. Landfari skrifar:

    Takk fyri góðar ábendingar og ég verð að vera sammála því að gera kröfu um þokkalegt málfar alþingismanna.

    Eina athugasemd hef ég þó við þennan pistil og það er varðandi myndina í DV. Án þess að hafa séð fréttina hefð ég haldð að best hefð farið á að segja „Myndin tengist fréttinni ekki.“ Með því að hafa greininn erum við að vísa í þessa ákveðnu mynd. Ef við förum út í alhæfingar og bætum við „alls ekki“ erum við bæði búin að lengja textann að óþörfu og bjóða heim hártogunum á borð við að tengingin sé „ung stúlka“ sem komi við sögu í báðum tilfellum þó ekki sé um sömu stúlkuna að ræða.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>