«

»

Molar um málfar og miðla 1622

 

Gaman að beinni útsendingu frá Færeyjum á Rás eitt á laugardagskvöld (22.11.2014), þótt upphafið væri slitrótt ,þegar tæknin brást. Bein útsending var svo að nýju frá Færeyjum í Morgunútgáfunni á mánudag (24.11.2014). Þar var til fyrirmyndar að tala við Færeyinga á íslensku, ekki babla ensku eins og gert er í Flandraþáttunum Ríkissjónvarpinu.

Á sínum tíma, þegar Molaskrifari starfaði í tæp tvö ár í Færeyjum, reyndi hann að vekja áhuga stjórnenda Ríkisútvarpsins á auknu samstarfi við Færeyinga í útvarps- og sjónvarpsmálum. Það tókst ekki. Áhuga skorti hjá yfirstjórninni í Efstaleiti. Nægur áhugi var í Færeyjum. Vonandi er áhugi Ríkisútvarpsins á grönnum okkar nú að vakna. Bogi Ágústsson er sá fréttamaður, sem helst hefur haldið merki Færeyja á lofti í Ríkisútvarpinu.

– Tvisvar sinnum var farið rangt með nöfn í þættinum á mánudag. Þar skorti á vandvirkni. Stjórnendur þurfa að venja sig af slettum. (ideal fyrir fiskeldi, standard Færeyingur). Eftir nokkuð langa Færeyjadvöl veit Molaskrifari ekki hvað standard Færeyingur er. Svo var okkur sagt að skítaveður hefði verið í Færeyjum á sunnudeginum. Molaskrifari upplifði aldrei skítaveður í Færeyjum. Það gat verið hvasst. Það gat rignt. Það gat verið slagveður, – ekki skítaveður.

 

Áður en ferðinni verður haldið til Ítalíu var sagt í íþróttafréttum Ríkisútvarps í hádeginu á mánudag (24.11.2014). Áður en haldið verður til Ítalíu. Sami íþróttafréttamaður sagði okkur frá knattspyrnumanni sem lagði skónna á hilluna. Lagði skóna á hilluna.

 

Í fréttum Stöðvar tvö (23.11.2014) var talað um að bora fyrir grunnvatni. Hefði ekki verið eðlilegra að tala um að bora eftir grunnvatni?

 

Hver nemandi er þá að leysa prófin á eigin forsendum, sagði forstöðumaður Námsmatsstofnunar í fréttum Ríkissjónvarps (24.11.2014) . Molaskrifari játar að hann skildi þetta ekki.

 

Hestur sigrast á vatnshræðslu á mjög krúttlegan hátt, segir í fyrirsögn á mbl.is (25.11.2014). ???? http://www.mbl.is/folk/frettir/2014/11/25/hestur_sigrast_a_vatnshraedslu_a_mjog_kruttlegan_ha/

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

1 athugasemd

Ekkert ping ennþá

  1. Kristján skrifar:

    Ég horfði á íþróttaþátt RÚV í gærkvöld, ef íþróttaþátt skildi kalla. Eintóm viðtöl vegna íslenskrar knattspyrnu, sem hefst næsta sumar !

    Sumir strákarnir sem sjá um þennan þátt, virðast fá mikið út úr því að taka vitöl. Áhorfandinn heima í stofu vill helst sjá fólk sprikla og minna mas.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>