«

»

Molar um málfar og miðla 1624

Molaskrifara var svolítið brugðið er hann hlustaði á upphaf kvöldfrétta Ríkisútvarpsins í gærkvöldi (27.11.2014) en í upphafi fréttatímans var sagt: Uppþot varð á Alþingi í dag …. Fyrst hvarflaði að honum að til slagsmála hefði komið í þingsal, enda skilur hann orðið uppþot með sama hætti og orðabókin; óeirðir, upphlaup. Svo kom í ljós að komið hafði til snarpra orðaskipta. Það var nú allt og sumt. Hófstilltara orðalag var í sjónvarpsfréttum seinna um kvöldið, en þar var talað um fjaðrafok.

 

Svo smám saman feidast þetta út, sagði umsjónarmaður Morgunútgáfu í Ríkisútvarpinu (26.11.2014). Hvimleiðar slettur í þessum þætti. Svo minnkar þetta smám saman, svo hverfur þetta smám saman. Í sama þætti var talað um að hindra óeirðir. Betra hefði líklega verið að tala um að koma í veg fyrir óeirðir. En það er kannski sérviska Molaskrifara.

 

Í þessum sama þætti var rætt við vin Molaskrifara í Færeyjum, Baldvin Þór Harðarson, sem sagði frá því að um leið og olíuverð lækkaði á heimsmarkaði lækkaði verð eldsneytis á bensínstöðvum í Færeyjum. Á Íslandi þekkjum við það að verðið hækkar hér um leið og heimsmarkaðsverð á olíu hækkar, en lækkanir skila sér ekki jafn fljótt til neytenda. Hin samræmdu íslensku olíufélög lækka verðið í nákvæmum takti fyrirvaralaust 2-3 sinnum í mánuði. Það stendur í einn dag. Svo samtaka eru þessi samræmdu félög að oftast líða aðeins nokkrar mínútur milli tilkynninga frá þeim um afslátt, verðlækkun. Þessi afsláttur er ekki í neinum tengslum við heimsmarkaðsverð á olíu , en fer stundum eftir velgengni íslenska liða í boltaleikjum erlendis. Samræmdu olíusalarnir á Íslandi hafa okkur neytendur að fíflum.

 

Af mbl.is (26.11.2014): Þess fyr­ir utan var nokkuð ósam­ræmi á milli framb­urða. Ekki er þetta nú tiltakanlega vel orðað. Hér hefði til dæmis mátt segja: Þar að auki var misræmi í framburði vitna. http://www.mbl.is/frettir/erlent/2014/11/26/setti_byssuna_sjalfur_i_poka/

 

Úr fréttum Ríkissjónvarps (26.11.2014): ,,Á föstudaginn var greint frá því að Landhelgisgæslan og norski herinn hafi komist að samkomulagi um að vopn, sem bárust hingað til lands frá Norðmönnum, verði skilað”. Vopn verður ekki skilað. Vopnum verður skilað. Í sama fréttatíma var sagt frá óeirðum í Bandaríkjunum og heyrði Molaskrifari ekki betur en tekið væri svo til orða: ,,Í Minneapolis varð fólk heitt í hamsi, þegar akstursleiðum var lokað”. Fólki varð heitt í hamsi, fólk var í uppnámi og var ekki verið að loka götum ? Akstursleiðum?

 

Haldið var áfram að babla ensku við Færeyinga í Ríkissjónvarpinu í gærkvöldi (27.11.2014). Í lokin var okkur sagt, að í næsta þætti færu strákarnir í gangnaferð. Hvað er gangnaferð?

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>