Í Spegli Ríkisútvarpsins (27.11.2014) þar sem fjallað var um vopnabúnað lögreglunnar hér á landi vitnaði fréttamaður í yfirlögregluþjón hjá ríkislögreglustjóra og sagði: Jón segir að vopnin verði ekki neydd upp á þá að svo stöddu. Ekki kann Molaskrifari allskostar vel við þetta orðalag. Hefði ekki verið eðlilegra að segja að þeir yrðu ekki neyddir til að taka við vopnunum að svo stöddu ?
Af visir.is (27.11.2014): Hann segist ekki lítast vel á stöðuna á krabbameinsdeild á Landspítalanum. Hér hefði átt að segja til dæmis: Hann segir að sér lítist ekki vel á …. eða, – honum líst ekki ekki vel á stöðuna. http://www.visir.is/article/20141127/FRETTIR01/141129119
Af mbl.is (28.11.2014): Við vorum að spila heilt yfir vel bæði varnarlega og sóknarlega. Dæmigert íþróttamál sem oftar og oftar sést í dag
Aftur og aftur er talað um hljóstina í Ríkisútvarpinu, þegar átt er við hljómsveitina. Þetta var einkar áberandi hjá umsjónarmanni í Morgunútgáfunni (28.11.2014). Í sama þætti sagðist umsjónarmaður vera svona ,,slow learner” (tornæmur, væri ekki fljótur að læra) og aftur og aftur var talað um góða díla ,gera góðan díl. Gera góð kaup. Þennan sama morgun var sagt í þessum þætti: ,,Nú er komið að lífseiga lag dagsins”. Lífseiga lagi dagsins. Það var sönglag, ,,sem varð fljótlega að jassstandard”. Það verður að segjast eins og er, að málfarið í þessum þætti er stundum ekki upp á marga fiska.
Auglýsingin: Black Friday, megaútsala, sem hljómaði í í eyrum okkar hlustenda Ríkisútvarpsins á föstudagsmorgni ( 28.11.2014) hlýtur að vera liður í málverndarstefnu Ríkisútvarpsins. Auglýsingastofan í Efstaleiti tekur greinilega gagnrýnilaust við öllu sem að henni er rétt.
Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins á föstudag (28.11.2014) var sagt frá kosningum í Grænlandi. Um einn frambjóðandann var sagt : ,, hin vel menntaða …” . Voru hinir frambjóðendurnir ekki vel menntaðir? Hversvegna þurfti að taka það sérstaklega fram um þennan eina frambjóðanda að hann væri vel menntaður ?
Hitastigið í Reykjavík og í Þórshöfn í Færeyjum nær ekki inn á Evrópukortið í veðurfréttum norska sjónvarpsins NRK. Ekki heldur inn á Evrópukortið í veðurfréttum BBC World fréttunum.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar