Furðu lostinn fylgdist Molaskrifari með úttekt Helga Seljans og starfsfélaga hans í Kastljósi í gærkvöldi (16.12.2014) á vafasömum (að ekki sé meira sagt) viðskiptaháttum, sem viðgengist hafa hjá Vegagerðinni. Þetta var Kastljós eins og það á að vera. Takk og hrós. Lá við að maður vorkenndi reyndar vegamálastjóra í viðtalinu í seinni hluta þáttarins. Vegagerðin er ekki í góðum málum. Það var hún heldur ekki þegar fyrir þrýsting bæjarstjórnarmeirihlutans í Garðabæ var ráðist í allsendis óþarfa vegagerð um Gálgahraun/ Garðhraun, eldhraun á náttúruminjaskrá. Þar hafa verið unnin óbætanleg skemmdarverk. Þar var Vegagerðin í vondum málum vegna þess meðal annars, að umhverfismatið var rúmlega ellefu ára gamalt og miðaðist við aðra framkvæmd og framkvæmdaleyfið var fallið úr gildi. Dæmi um afspyrnu vonda stjórnsýslu hjá okkur Íslendingum.
Kastljósið var fínt dæmi um það aðhald sem fjölmiðlar geta veitt. Og Vegagerðin ætlar greinilega að bregðast við.
Dyggur Molalesandi sendi eftirfarandi (16.12.2014): ,,Í frétt á mbl.is í dag 16. desember segir „…íbúi í Hafnarfirði, hætti sér út í vonskuveðrið nú fyrir skemmstu til að ná í bíl sinn, sem var lagður við kirkjugarð Hafnarfjarðar.“ Ég vona að bíllinn hafi ekki verið lagður til hinstu hvílu” Vonandi ekki. Molaskrifari þakkar ábendinguna. Rétt er að geta þess að Moggamenn lagfærðu amböguna síðar um daginn.
Kaffihúsið er í nágrenni við skrifstofu forsætisráðherra og höfuðstöðvum helstu banka, var lesið fyrir okkur í hádegisfréttum Ríkisútvarps (15.12.2014). …í nágrenni skrifstofu forsætisráðherra og höfuðstöðva helstu banka, hefði þetta átt að vera. Enginn yfirlestur?
http://www.ruv.is/frett/hafa-borid-kennsl-a-hrydjuverkamanninn
Á fréttavef Ríkisútvarpsins (15.12..2014) var sagt frá tveimur köppum, sem klifu einn hættulegasta tind veraldar. Það láðist hinsvegar algjörlega að segja okkur hvað tindurinn héti og hvar í veröldinni hann væri. http://www.ruv.is/frett/klifu-einn-haettulegasta-tind-veraldar
Villandi fyrirsögn á bls. 14 í Fréttablaðinu á mánudag (125.12.2014): Stórslysi afstýrt er tvær farþegaflugvélar skullu nærri saman. Í smáletraðri yfirfyrirsögn segir hinsvegar: Rússnesk herþota flaug of nálægt farþegaflugvél. Það er rétt. Þetta er svolítil hroðvirkni. Þarna hefur prófarkalestur ekki verið í lagi.
Rafmagnslaust í Breiðdalsvík, segir í fyrirsögn á bls. 21 í Morgunblaðinu (16.12.2014). Málvenja er að segja á Breiðdalsvík, ekki í Breiðdalsvík. Þeir sem skrifa fréttir eiga að temja sér að læra hvaða forsetningar eru notaðar með staðaheitum á Íslandi. Fréttin hefst hins vegar réttilega á orðunum: Rafmagnslaust varð í Breiðdal …
Hvað voru fánar EFTA ríkjanna að gera á skjá Ríkissjónvarpsins í seinni fréttum í gærkveldi (16.12.2014)? Fánarnir og nafn EFTA var sett á skjáinn með frétt um innleiðingu reglna ESB í tengslum við EES samninginn. Það mál kemur EFTA ekkert við,- að Molaskrifari best veit. Enda er EFTA ríkið Sviss ekki EES ríki.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar