Myndbirtingar á vefmiðlum eru stundum kyndugar. Þá fara stundum viðvaningar í myndasöfn og leita. Oft með lélegum árangri. Á laugardag (13.12.2014) birti mbl.is frétt um flóttamann, sem beið bana í Englandi. Hann hafði falið sig undir vöruflutningabíl sem fór frá Frakklandi til Englands. Lést ,,þegar hann gerði tilraun til að koma sér út úr farartækinu” sagði í fréttinni. Með fréttinni er birt mynd af litlum flutningabíl og er pallurinn greinilega fullur af snjó. Var verið að flytja snjó frá Frakklandi til Englands? Örugglega ekki. Sjá. http://www.mbl.is/frettir/erlent/2014/12/13/stokk_ur_vorubil_og_let_lifid/
Í hádegisfréttum Ríkisútvarps á laugardags (13.12.2014) var talað um selaveiðar og selaveiðimenn. Auðvitað er þetta ekki rangt og engin kórvilla. Skýr málvenja er hinsvegar hjá okkur að tal um selveiðimenn og selveiðar. Ekkert auka a inni í miðju orði. Þetta var lagfært á vef Ríkisútvarpsins. Þar var hinsvegar talað um selstofn, þegar tala hefði átt um selastofn. Og þar er þessi setning: Stuðningsmenn veiðanna segja að nauðsynlegt sé að grisja selstofninn þar sem dýrin éti svo mikinn fisk frá útgerðinni. http://www.ruv.is/frett/endalok-selveida-i-atvinnuskyni-i-noregi
Í sama fréttatíma var talað um karlmenn með breiðar axlir. Kannski eru þetta áhrif úr ensku broad-shouldered. Á íslensku tölum við um herðabreiða menn, herðibreiða og orðabókin nefnir líka axlabreiður.
Í frétt um njósnabúnað,sem fundist hafði í Noregi (Ríkisútvarpið 13.12.2014) var ýmist vitnað í Aftenposten, sem er norskt dagblað eða Aftonbladet, sem er sænskt blað. Í netútgáfu Aftonbladet varekkert um þetta mál að finna. En þetta var aðalfréttin á forsíðu netútgáfu Aftenposten.
,,En Gunnar Bragi segir að sá gagnrýni sé byggð á misskilningi”, var sagt í fjögur fréttum Ríkísútvarps á sunnudag (14.12.2014). Ef fréttaþulir hlusta á það sem þeir lesa, þá leiðrétta þeir svona mismæli.
Úr frétt á dv. is (14.12..2014): http://www.dv.is/frettir/2014/12/14/upplysingafulltrui-rikisstjornarinnar-i-rogsherferd-gegn-verdlaunabladamanni/
,,Rekstarfélagið heyrir undir Bjarna Benediktsson, fjármálaráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins, sem hafði vitneskju um gæðaskort rannsóknarinnar mánuðum saman en aðhafðist ekki. Gæðaskort rannsóknarinnar? Ekki mjög vel orðað
Í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins á mánudag (15.12.2014) var okkur sagt að fimbulkuldi væri um allt land. Eftir málskilningi Molaskrifara var það ekki svo. Frost inni á hálendinu var að vísu 15 stig, en víða í byggðum 5-8 stig, samkvæmt korti Veðurstofunnar, sem er ekkert óvenjulegt á þessum árstíma. En svona leggjum við ólíka merkingu í orð. En er ekki svolítið verið að verðfella orði fimbulkuldi, fimbulfrost, þegar ekki er þó kaldara en þetta?
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar