«

»

Molar um málfar og miðla 1635

 

Rafn benti á þessa frétt á mbl.is (11.12.2014) og segir: ,,Neðanskráð frétt er í Netmogga núna. Það sem vekur furðu mína er tvennt, annars vegar; hver hefur hagsmuni af að bjarga slysi og tryggja þar með framgang þess? og hins vegar; undan hverju var slysinu forðað?

Ég hefði talið eðlilegt að reyna að kæfa slysið í fæðingu, en ekki að forða því undan hremmingum og tryggja þar með framgang þess.”

Og hann bætir við:

,,PS: Hvernig fara rafgeymar í gang?? (. . . ann­ar raf­geym­ir­inn hef­ur eyðilagst og þá fara þeir ekki í gang . . . ),,

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/12/11/skjot_vidbrogd_fordudu_storslysi/

Molaskrifari þakkar Rafni bréfið.

 

Rafn benti einnig á þessa frétt á mbl.is sama dag: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/12/11/snjor_ut_um_allt_a_akureyri/

Fyrirsögnin er sem sagt: Snjór út um allt á Akureyri.

Hann spyr hvort snjónum hafi verið glutrað niður og segir: ,,Hér segir Netmoggi, að snjór hafi farið út um allt á Akureyri. Þarna hefði ég strax talið skárra, að segja: Snjór úti um allt á Ak­ur­eyri Enn betur hefði mér þótt fara á að segja: Allt á kafi í snjó á Ak­ur­eyri,

Eða eitthvað í þeim dúr, en ég er víst bara að verða gamall!” Molaskrifari þakkar Rafni og sér engin ellimörk á þessari ágætu ábendingu.

 

Á fimmtudagskvöld (11.12.2014) sagði íslenskur dagskrárgerðarmaður í Ríkissjónvarpinu við færeyskan stjórnmálamann, lögþingsmanninn, Jenis av Rana: – You are also a congressman(!), og fleira í þeim dúr. Svo var talað um jarðgöng. Tvö göng! Ekki gott. Tvenn göng. Ríkissjónvarpið þarf að gera betur en þetta. Vanda ráðstöfun takmarkaðs dagskrárfjár.

 

Molaskrifari staðnæmdist við fyrirsögn Staksteina Morgunblaðsins á föstudag (12.12.2014) Ábyrgðarlaus stóryrði og della.

Við lestur kom í ljós að Staksteinahöfundur sagði, að í umræðum um Ríkisútvarpið ,,sleppti stjórnarandstaðan sér algjörlega”. Hefði talað um ,,beint inngrip í sjálfstæði stofnunarinnar”, og það ,,sem hér er að koma í staðinn eru handjárnin” ( … að Ríkisútvarpið skuli rekið innan fjárheimilda) . ,,Skilyrðin væru niðurlægjandi fyrir Ríkisútvarpið”. Þetta er eru hin ábyrgðarlausu stóryrði. Út frá merkingu orðsins stóryrði í huga Molaskrifara eru þessar fullyrðingar Staksteina eiginlega hálfgerð della, svo notað sé orðalag Staksteina.

 

Skemmtilegt Orðbragð í Ríkissjónvarpinu í gærkvöldi (14.10.2014). Ekki síst stöfunarkeppnin og örnefnin, staðaheiti, í stafrófsröð umhverfis landið! Fínn þáttur. Mikið hugmyndaflug. Takk.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>