«

»

Molar um málfar og miðla 1634

Ekkert sjóferðaveður næstu daga, var fyrirsögn á mbl.is (09.12.2014). Auðvitað er ekkert rangt við að tala um sjóferðaveður, – þótt málvenja sé að tala um sjóveður. Í fréttinni var talað um að skip og bátar þyrftu að leita skjóls. Málvenja er að tala frekar um að sigla í var eða leita vars, komast á lygnari sjó.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/12/09/ekkert_sjoferdavedur_naestu_daga/

 

Af mbl.is (10.12.2014): ,,Augljóst var að sumir bílar áttu erfitt með festa grip á veginum í morgun, nokkrir bílar fóru útaf og einn velti skammt frá Grindavíkurafleggjaranum.” Velti hverju? Þannig hefur sjálfsagt einhver spurt, sem þetta las. Bíllinn valt, honum hvolfdi. Skylt er að geta þess að þetta var lagfært síðar. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/12/10/velti_bilnum_a_reykjanesbraut/

 

Góður pistill um Magnús Stefánsson , Örn Arnarson, í Kiljunni á miðvikudagskvöld (10.12.2014). Rifjaðist upp að fyrir margt löngu skrifaði menntaskólastrákur ritgerð um skáldið og Illgresi, líklega í 5. bekk hjá Jóni S. Guðmundssyni,sem var ógleymanlega góður íslenskukennari. Þá marglas ég Illgresi og bý að því enn.

 

Verslaðu jólagjafirnar á einum stað, auglýsir Penninn, Eymundsson í útvarpinu (11.12.2014). Við verslum ekki jólagjafir. Við kaupum jólagjafir. Þess vegna ætti þetta að vera: Kauptu jólagjafirnar á einum stað. Penninn, Eymundsson. Óvönduð vinnubrögð.

Lyfja auglýsir sama dag afslátt af öllum ilmum. Þetta er líka vondur texti . Orðið ilmur er ekki til í fleirtölu. Það er eintöluorð. Auglýsingastofa Ríkisútvarpsins blessar ambögur af öllu tagi og bregst þannig því hlutverki sem Ríkisútvarpið á að gegna: Að standa vörð um íslenska tungu. Það er alvarlegra mál en margur hyggur.

 

Samkvæmt starfsfólki deildar …  – var sagt í fréttum Stöðvar tvö af Landspítalanum. (11.12.2014). Æ algengara er það orðið  að heyra þetta orðalag. Einnig er oft sagt í fréttum:  Samkvæmt lögreglunni. Molaskrifari kann betur við að sagt sé: Að sögn starfsfólks, samkvæmt upplýsingum lögreglunnar …  Kannski er það bara sérviska.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>