Molavin skrifaði (09.12.2014): ,,Talsverðar umræður hafa átt sér stað á fólksmiðlum að undanförnu um skert framlög skattgreiðenda til Ríkisútvarpsins. Um þá staðreynd verður ekki deilt – en á móti kemur að RUV stendur heldur ekki við sinn hluta samningsins við ríki og skattgreiðendur, sem lögin eru, meðan það sniðgengur skyldur sínar um meðferð íslenskrar tungu. Ekkert er reyndar að finna beinlínis í lögum um stofnunina um kauðskt og barnalegt málfar en það hlýtur að falla undir þá töluliði 3. gr. laga er segja það hlutverk hennar að “Leggja rækt við íslenska tungu” og “Vera til fyrirmyndar um gæði og fagleg vinnubrögð.” “.
Og hér kemur önnur hugleiðing frá sama höfundi: ,,Ritstjórnarfulltrúi DV dæmir í dag (9.12.2014) Styrmi Gunnarsson harðlega fyrir upplýsingasöfnun fyrr á árum og dæmir hann úr leik sem blaðamann og ritstjóra fyrir vikið. Þarna gengur ungur blaðamaður í þá gildru að lesa fortíðina með gleraugum samtíðarinnar. Sagnfræðin varar menn við slíku. Um miðja síðustu öld voru öll dagblöð flokksmálgögn; samt störfuðu þar blaðamenn og ritstjórar, sem störfuðu heiðarlega eftir grundvallaratriðum fréttamennsku.
Á kuldaskeiði kalda stríðsins voru persónunjósnir stórveldanna víðtækar hér á landi. Þá tengdist Þjóðviljinn sendiráði Sovétríkjanna líkt og Morgunblaðið var í nánu sambandi við bandaríska sendiráðið. Styrmir og Matthias Johannessen eiga hins vegar undir lok aldarinnar einn merkasta feril íslenzkra blaðamanna er þeir slitu tengsl Moggans við flokkinn og opnuðu blaðið fyrir pennum allra flokka. Þannig bundu þeir enda á daga flokksmálgagna. Þá var blómatíð Morgunblaðsins.
Þeir sem vilja fella dóma um samtímann gerðu vel í því að lesa söguna. Dagbækur Matthíasar eru aðgengilegar á Netinu. Þar má lesa margt fróðlegt um þetta tímabil.” Molaskrifari þakkar þessi tvö bréf.
Dagbækur Matthíasar eru skemmtileg lesning og fróðleg heimild um samtímann.
Molaskrifara leiðist heldur, þegar frægir útlendingar, sem komið hafa til Íslands eru oftar en ekki titlaðir Íslandsvinir í fréttum. Finnst einhver minnimáttarkennd kristallast í því. Til dæmis, þegar leikarahjón létu svo lítið að heilsa Vilhjálmi Bretaprinsi og konu hans á körfuboltaleik vestanhafs voru þau í íþróttafréttum (09.12.2014) auðvitað kölluð ,,Íslandsvinir”. Verður fólk sjálfkrafa Íslandsvinir, ef það heimsækir Ísland einn dag eða tvo?
Loksins eru heimildamyndir að öðlast eðlilegan sess í dagskrá Ríkissjónvarpsins. Prýðileg mynd um fall Berlínarmúrsins í gærkvöldi (10.12.2014).
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
11/12/2014 at 11:17 (UTC 0)
Sammála, Kristján.
Kristján skrifar:
11/12/2014 at 11:12 (UTC 0)
Vilhjálms prins var líka til umfjöllunar á Stöð 2 vegna körfuboltaleiksins í NY. Gat ekki betur heyrt en að íþróttafréttamaður hefði titlað prinsinn: „Prince William hertoginn af duke.“ Alveg bráðfyndið.
Gaman að sjá svona góðar heimildamyndir á RÚV. Meira svona, og minna af drasli, eins og flandursþætti, hraðfréttir osfrv.