«

»

Molar um málfar og miðla CXVIII

     Jóhanna Kristjánsdóttir, mín gamla  vinkona og skólasystir, kvartar yfir því á fésbókinni að lítt sé  skrifað um málfar í  fjölmiðlum.  Hér hafa  verið birtir  118 pistlar ,- langflestir um  ambögur og hortitti. En vissulega hefur einnig  verið  vikið að ýmsu öðru. Pistlarnir gætu verið fleiri,- það er nógu að taka.

Í fréttum Stöðvar tvö (05.08.2009) var sagt frá því að  vinsæll kóalabjörn  hefði verið  aflífaður í Ástralíu , en hann var með ólæknandi sjúkdóm. Svo  var tekið  til orða að hann hefði verið mörgum harmadauði.  Það orð er ekki  til í okkar máli. Við  tölum um harmdauða og harmagrát.

 Einhver ótrúlegasta frétt,sem lengi hefur  heyrst er  að formaður Framsóknarflokksins   hafi krafist þess að sendiherrar  erlendra  ríkja mætttu  til yfirheyrslu á  fund  utanríkismálanefndar.   Fréttin  segir okkur að  formaðurinn veit ekki mikið um  gangverk  stjórnkerfisiins  eða  samskipti  við erlend ríki og   fulltrúa þeirra.  Framsóknarmenn ættu að senda formann sinn á  skólabekk.

  Hafi  einhver hyggju á  að,  var sagt í  fréttum  Stöðvar  tvö ((04.08.2009), Hér  ruglað saman. Annað hvort hefði átt að segja:  Hafi einhver í hyggju  eða hafi eihver  hug á.

   Það hlýtur að vera  Sjónvarpi ríkisins mikið áhyggjuefni hve  auglýsingar í  sjónvarpi hafa  hraðminnkað.  Aðalauglýsingarnar  eru  nú  dagskrárkynningar og   auglýsingar um  eigið ágæti Ríkisútvarpsins og þeirra  sem þar starfa, en þar starfar  auðvitað margt ágætisfólk.

Í  fljótu  brgaði  sýnist mér  að    Ríkissjónvarpið  sé  að  verða undir  í samkeppninni  við  Stöð tvö, ÍNN og  Skjá  einn. 

  Í guðanna bænum, stjórnendur  Rúv,  færið okkur  aftur  gömlu  Rás  eitt á  morgnana og hætttið þessu morgunfrúarbulli. Þetta  segi ég sem   einn af  eigendum RÚV,  en   við  erum  auðvitað bara  til að  guma af íauglýsingum   um ágæti  stofnunarinnar . Ráðum engu.  Svo mætti einhver í  tónlistardeildinni segja     morgunfrúnni að   ljóðrænt , venjulega stutt  tónverk´sem á  ensku  heitir Romance, er ekki  kallað  rómans á íslensku, heldur  rómansa. Alla vega  veit  ég ekki betur en  viðurkenni  þekkingarleysi mitt á   sviði tónlistarinnar.

Hlýddi  á  stórkostlega  flaututónleika í  Skálholtskirkju í gærkveldi. Óvenjulegir tónleikar, glæsilegir, Frábært listafólk,sem skilaði  sínu með  sæmd. Yndisleg kvöldstund.

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Góður pistill, Ben.Ax. Ekki veit ég hvað  til bragðs  skal taka. Hvernig væri að Blaðamannafélagið beitti sér fyrir árlegum  námsskeiðum þar sem  farið   væri yfir þessar á að giska  tvö, þrjú hundruð ambögur sem  sífellt ganga aftur ?  Svo mætti líka gera lista yfir  ambögurnar. Árni Böðvarsson mun hafa   samið slíkan lista  þegar hann var málfarsráðunautur Ríkisútvarspsins.  Líklega hefur  listinn týnst er  flutt var í Efstaleitið. Kannski var honum bara hent.

  2. Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson) skrifar:

    Sæll. Ég hef bæði verið íslenskukennari og prófarkalesari og því oft spurt mig hvort það þjónaði einhverjum tilgangi, öðrum en að skemmta sér, að benda á vitleysurnar hjá fjölmiðlafólki. Allir eru vonandi að gera sitt besta en í þessari stétt hafa alltaf verið misjafnir sauðir í mörgu fé. Misjöfnu sauðunum fjölgar hins vegar af eðlilegum ástæðum. Unga fólkið er fjarlægara uppruna málsins en við. Það þekkir ekki bullustrokk og því kemur annað hljóð í skrokkinn. Mörg orðtök tengjast fornum og aflögðum búskaparháttum og því er varla hægt að ætlast til þess að ungt fólk geri sér alltaf grein fyrir því hvort það er að fara með rétt mál eða rangt en oft finnst mér að blaðamenn mættu kanna málið ef þeir eru í minnsta vafa í stað þess að segja t.d. (Fréttablaðið)  að Þráinn Bertelsson hafi haft ávinning af því að stjórnin byggist við skýringum á kosningunni. Verst finnst mér þó þegar fréttamenn eru svo skyni skroppnir að þeir átta sig ekki betur á ættartengslum en svo að þeir segja föður vera frænda sonar síns. En kannski er þetta fornnorræna.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>