«

»

Molar um málfar og miðla 1648

 

Í Morgunútgáfunni í Ríkisútvarpinu (06.01.2015) ræddu tveir umsjónarmanna við málfarsráðunaut. Meðal annars bar á góma sögnina að fokka, að gaufa eða slæpast. Molaskrifari hefur heyrt orðið notað í þessari merkingu alla sína ævi. – Ég veit ekki hvað hann var að fokka, – ég veit hvað hann var að slæpast. Í Orðsifjabók Ásgeirs Blöndals Magnússonar er orðið sagt frá 17. öld líklega úr dönsku frá þeim tíma eða fyrr. Öðru máli gegnir hinsvegar um talsháttinn að fokka upp, að klúðra, mistakast eða gera eitthvað að vandræðamáli. Það er seinni tíma fyrirbæri beint úr ensku (amerískri ensku, að öllum líkindum).

Ekki sér Molaskrifari jafn ríkar ástæður til að amast við áhersluorðinu ansi , frekar mjög, talsvert, ansi gott og gert var í þessu morgunspjalli. Tengingin við orðið andskoti í þessari merkingu er löngu horfin. Á æskuheimili skrifara var lagt bann við blóti. Það sterkasta sem móðir mín heitin sagði, ef henni blöskraði, var einna helst ansans ári, eða bévítans, ef eitthvað gekk alveg fram af henni. Molaskrifari hefur hinsvegar lengi haft þann ósið að nota blótsyrði til áherslu og hefur til dæmis ekki tekist að venja sig af því að segja að eitthvað hafi verið helvíti gott. – Ekkert er að því að starfsmenn Ríkisútvarpsins hrósi hver öðrum,en það á svo sem ekkert sérstakt erindi við hlustendur.

Af vef dv.is (06.01.2015): Á vef ráðuneytisins segir að nýr formaður verður skipaður á næstu dögum. Hér ætti að sjálfsögðu að standa: ,,Á vef ráðuneytisins segir, að nýr formaður verði skipaður á næstu dögum”.

Kvikmyndir tæla ferðamenn, stóð í skjátexta í fréttayfirliti Stöðvar tvö (06.01.2015). Þetta er auðvitað bull. Sögnin að tæla þýði (sjá ísl. orðabók), svíkja blekkja,véla,glepja , draga á tálar. Ekkert af þessu átti við fréttina. En þar var sagt að kvikmyndir teknar á Íslandi ættu sinn þátt í að laða ferðamenn til Íslands.

Í sama fréttatíma var talað um þykkt reipi. Samkvæmt málkennd Molaskrifara tölum við frekar um sver reipi eða tóg, eða gild reipi. En myndirnar báru eiginlega með sér að málið snerist um fremur grannan kaðal. Hann var sverari en trolltvinni, – en líklega skilja fáir það orð nú um stundir.

Af forsíðu Fréttablaðsins (07.01.2015): Á morgun lýkur síðan tónleikaferðalaginu með giggi í Melbourne. Fréttin er um tónleikaferð íslensks listamanns. Orðabókin segir að enskuslettan gigg sé slanguryrði tónlistarmanna um opinberan tónlistarflutning, tónleika, dansleik eða aðra samkomu. Encarta orðabók Molaskrifara segir að orðið gig sé notað um tónleika á stað þar sem  tónlistarmaðurinn (mennirnir) er ekki fastráðinn, eða um tímabundið starf við tónlistarflutning. Enskuslettan var óþörf í fréttinni og alls ekki víst að allir lesendur blaðsins hafi skilið slettuna.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Sæll Guðjón Ingi, – ég kannast mæta vel við þessa merkingu, að láta eitthvað fokka, henda einhverju eða láta eitthvað eiga sig. Hefði átt að nefna það líka. Kærar þakkir, esg

  2. Guðjón Ingi Guðjónsson skrifar:

    Sæll, Eiður.

    Svo vill til að ég fletti upp merkingu sagnarinnar „fokka“ í orðabók um daginn og sá líka þessa merkingu sem þú nefnir, gaufa eða slæpast. Mér fannst það athyglisvert því foreldrar mínir, sem ólust upp á 4. og 5. áratug síðustu aldar (annað í Reykjavík, hitt á Ströndum), kannast við orðið frá fyrri tíð, þó ekki í þessari merkingu. Þau segja mér að talað hafi verið um að „láta eitthvað fokka“ í merkingunni að láta eitthvað eiga sig eða henda einhverju. Það væri gaman að vita ef fleiri kannast við þessa notkun.

    Þakka áhugaverða pistla.

    Kv.,

    Guðjón Ingi Guðjónsson

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>