… í miðborg París, sagði fréttamaður Stöðvar tvö (078.01.2014). Beygja, beygja. .. í miðborg Parísar hefði þetta átt að vera.
Í fréttum Ríkisútvarps (07.01.2014) var talað um samskeppnisleg áhrif. Samkeppnisáhrif eða áhrif á samkeppni. Rík tilhneiging til að bæta –leg , -lega, við nafnorð í tíma og ótíma. Samanber viðtekið orðalag í íþróttafréttum nú orðið, – varnarlega , sóknarlega. Nú fær Molaskrifari, ef til vill á baukinn hjá íþróttafréttamönnum Ríkisútvarpsins á fésbókinni. Fréttamenn bregðast misvel við gagnrýni í Molum.
Af visir.is (07.01.2014) Harður árekstur rútu og fólksbíls varð rétt fyrir ofan Borg í Grímsnesi á tólfta tímanum í dag. Ekki þekkir Molaskrifari málvenju heimamanna í Grímsnesinu,- en hvað er rétt fyrir ofan Borg? Er það rétt austan við Borg í Grímsnesi?
Fyrirsagnir í fjölmiðlum eiga að vera skiljanlegar. Þessi fyrirsögn af visir.is (08.01.2014) er það ekki: Margir gerast vegan í janúar, http://www.visir.is/margir-gerast-vegan-i-januar/article/2015701089955
Fréttin byrjar svona: Í janúar fer fram hið alþjóðlega átak Veganúar (e. veganuary), en átakinu var hleypt af stokkunum af Matthew Glover og Jane Land í fyrsta sinn í fyrra. En hvað er vegan? Það er skýrt svona í fréttinni: Þeir sem eru vegan sneiða hjá öllum dýraafurðum. Molaskrifara finnst þetta hreint ekki vera til fyrirmyndar, – að ekki sé nú sterkar að orði kveðið.
í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins að morgni fimmtudags (08.01.2015). var nokkuð löng kynning á ýmsum framleiðsluvörum Apple fyrirtækisins. Látum vera þótt þetta hafi verið nokkuð í námunda við auglýsingamörkin. En okkur hlustendum kemur nákvæmlega ekkert við hvaða skoðun umsjónarmaður hefur á svonefndum snjallúrum. Persónulegum skoðunum eiga að þáttastjórnendur að halda fyrir sig. Hlífa okkur sem hlustum.
Í Garðapóstinum (08.01.2015) segir frá nýbyggingu við Garðatorg þar sem verða 42 íbúðir. Þar segir um íbúðirnar: ,, … og sumar með tveimur svölum”. Svalir eru fleirtöluorð. Þarna ætti að standa: ,, … sumar með tvennum svölum”. Tvær svölur eru tveir fuglar.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar