Þetta er í fyrsta skipti í vetur sem mögulegt er að opna Skálafell, var sagt í kvöldfréttum frettum útvarps (31.01.2015). Átt var við opnun skíðasvæðisins í hlíðum Skálafells.
Það er galin dagskrárgerð að vera með hálftíma handboltafjas á besta tíma á laugardagskvöldi í Ríkisjónvarpinu. Jaðrar við ósvífni gagnvart þeim tugum þúsunda, sem hafa engan áhuga å fjasi um löngu búna leiki. Fáránlegur yfirgangur. Þetta hefði mátt afgreiða, ef vilji hefði verið fyrir hendi, í fimmtán mínútna löngum íþróttafréttum sem troðið hefur verið milli frétta og veðurs á sunnudagskvöldum
Á laugardagskvöldið kom svo meira en hálfur annar tími af söngvakeppni. Það efni höfðaði lítt til Molaskrifara, sem kemur Molalesendum varla á óvart, en ýmsir kunna víst að meta þetta. Þrjár konur þarf til að kynna efnið. Ein þeirra talaði um að sigra keppnina. Hún þarf að læra betur að nota orðin sigra og keppni. Guðmundur Guðmundsson , vék að þessu í bréfi til Mola (02.02.2015) og segir:
,,Ragnhildur Steinunn talaði um að sigra söngvakeppnina. Ekki gott, þó það hafi verið í beinni. Fjölmiðlafólk nær þessu bara ekki. Þarf samt enga sérfræðinga til”. Molaskrifara fannst lögin keimlík og ekki hátt á þeim risið. En þannig á það víst að vera í þessari keppni.
Í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins í morgun (03.02.2015) var okkur svo tilkynnt að þar yrði söngvakeppnin á dagská alla daga til yfir lýkur, – þar til keppni lýkur. Þegar kemur að poppi og boltaíþróttum kann Ríkisútvarpið sér oft ekki hóf.
Það bætti úr skák að eftir það, sem á undan var gengið, kom margverðlaunuð öndvegis kvikmynd, Listi Schindlers.
Ágætt er að fá Maríu Sigrúnu Hilmarsdóttur aftur á fréttaskjáinn. Hún er prýðilegur þulur.
Í sjónvarpsauglýsingu frá Háskólabíói (31.01.2015) var talað um fjögur Óskarsverðlaun. hefði átt að vera , – fern Óskarsverðlaun. Aftur og aftur eru gerðar sömu vitleysurnar, þegar fleirtöluorð koma við sögu.
Úr frétt á mbl.is (02.02.2015) um par sem tók bíl traustataki til að komast leiðar sinnar: ,,Bættu þau við, að bifreiðin hafi verið ólæst og lykillinn í skránni. Lögreglan hvetur fólk til að ganga frá bifreiðum sínum læstum.”
Lykillinn í skránni? Lykillinn var í svissinum. Það er ekkert að því að nota orðið sviss um það sem á stirðara máli var kallað kveikjulás. Kveikjur, eins og áður fyrr voru í bílum , hafa vikið fyrir annarri tækni. Seinni setningin hefði verið einfaldari svona: Lögreglan hvetur fólk til að læsa bílum sínum.
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/02/02/vantadi_far_og_stalu_bil/
Kastljós var á dagskrá Ríkissjónvarpsins klukkan 1935 í gærkvöldi (02.02.2015). Það leið og beið. Ekkert Kastljós. Tuttugu mínútum síðar kom borði á skjáinn þar sem sagt var að ekki væri hægt að senda Kastljós út af tæknilegum ástæðum. Svolítið nánari skýring kom svo í seinni fréttum klukkan 22 00. Auðvitað getur öll tækni brugðist. Það vita gamlir sjónvarpsmenn kannski manna best, en þarna komu upplýsingar ó þarflega seint til áhorfenda. Hvað, ef koma hefði þurft mikilvægum upplýsingum til þjóðarinnar?
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar