«

»

Molar um málfar og miðla 1667

 

Hildur skrifaði (02.02.2015):

,,Sæll Eiður,
Takk fyrir að vera sífellt á vaktinni! Oft les ég það sem þú ert að skrifa en ekki alltaf, man ég t.d. ekki hvort þú hefur fjallað um atriði sem fara mjög fyrir brjóstið á mér. Þ.e. þegar talað er um að eitt og annað gangi vel eða illa „fyrir sig“. Þetta finnst mér afar ljótt og óþörf viðbót. Sjá t.d. á Mbl í dag: Fæðing­in gekk erfiðlega fyr­ir sig … Hvað finnst þér um þetta?

Og hvers vegna á fólk ekki lengur skólasystkini heldur hefur tekið upp orðskrípið „samnemendur“ þess í stað? “

Kærar þakkir, Hildur, fyrir hlý orð og mjög réttmætar athugasemdir. Sammála þér. Að tala um að  eitthvað gangi vel eða illa fyrir sig, er klúðurslegt orðlag og skólasystkin er fallegt orð, sem  við megum ekki láta enda í glatkistunni.

 

Guðmundur Guðmundsson skrifaði (002.02.2015): ,,Tvisvar hef ég heyrt umsjónarkonu morgunútvarps RÚV tala um að „blikur séu á lofti“ með afnám gjaldeyrishafta. Og þá í merkingunni að það hilli undir afnám hafta. Þversögn.” Molaskrifari þakkar Guðmundi bréfið.  Þetta orðalag er út í hött. Útvarpsfólk á ekki að nota orðtök, nema þekkja merkingu þeirra. Gildir reyndar um okkur öll.

Í frétt á visir.is (31.01.2015) af láti leikkonunnar Geraldine McEwan, sem lék einkaspæjarann Miss Marple í óteljandi sjónvarpsmyndum, var sagt að frökenin hefði verið njósnari. ,, Hún var hvað þekktust fyrir að leika njósnarann fröken Marple í vinsælum þáttum sem gerðir voru eftir bókum Agöthu Christie”.  Þetta er rangt eins og þeir vita, sem lesið hafa Agötu Christie. Mbl.is var með þetta rétt. Fröken Maeple var ekki njósnari, ekki frekar en sá frægi Hercule Poirot. Þau leystu sakamál með  rökhugsun og grúski.

 

Hér var nefnt á dögunum að gott væri í útvarpi að viðtölum eða samtalsþáttum loknum að segja hlustendum við hvern eða hverja var rætt. Þetta er oft gert í Ríkisútvarpinu, en svona með höppum og glöppum. Í lok Vikulokanna á Rás eitt síðastliðinn  laugardag greindi Anna Kristín Jónsdóttir frá því hverjir þar hefðu setið á spjalli. Þetta ætti ævinlega að gera. Er eiginlega ABC í dagskrárgerð, eins og kunningi Molaskrifara orðaði það. Sama ætti að gilda að loknum flutningi tónlistar, – meiri háttar tónverka alla vega.

 

Nú eigum við að anda í kviðinn, sagði þingmaður í fréttum Ríkissjónvarps (02.02.2015). Þetta orðalag hefur Molaskrifari ekki áður heyrt. Átt var við að við ættum að anda rólega, doka við, hugsa okkar gang. Anda í gegn um nefið er stundum sagt í sömu merkingu.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>