«

»

Molar um málfar og miðla 1669

 

Molavin skrifaði: ,, Í sjónvarpsgagnrýni Morgunblaðsins í dag, 5.2.2015, er sagt að sjónvarpsleikkonan Sofie Gråbøl leiki lögregluforingja í nýrri sjónvarpsþáttaseríu, Fortitude, sem tekin er að mestu á Íslandi, en á að gerast á Svalbarða. Hér er hins vegar um að ræða embætti sýslumanns á Svalbarða, en það heitir á ensku „governor“. Einföld leit með Google hefði hjálpað blaðamanni að fara rétt með.” Þetta er rétt athugað, Molavin. Sýslumaðurinn á Svalbarða er eini embættismaðurinn sem heyrir undir norsk stjórnvöld, sem ber starfsheitið sýslumaður, sysselmann.

 

Úr kvöldfréttum Ríkisútvarps (04.02.2105),, …úrskurðaði um að launamunurinn væri ólöglegur”. Hér hefði verið nóg að segja: Úrskurðaði að launamunurinn væri ólöglegur. Skera úr um. Úrskurða.

 

Molaskrifari gerir kannski of miklar kröfur um málfar í fréttum. Hann kunni ekki að meta þegar í þingfréttum Ríkissjónvarps (04.02.2015) ítrekað var talað um að opna á eitthvað, – í merkingunni að ljá máls á einhverju eða fallast á eitthvað.

 

Ágæt og fróðleg umfjöllun um Norður Kóreu í Kastljósi (04.02.2015), – þessar mestu þrælabúðir í veröldinni. Margt fleira hefði þá mátt segja. Molaskrifari heimsótti þetta undarlega land tvisvar í embættiserindum í nóvember 2003 og lok mars 2005. Ekki var síður eftirminnilegt að koma að landamærunum við Suður Kóreu við Panmunjong við 38. breiddarbauginn 1994 og til Dandong við landamæri Norður Kóreu og Kína 2005. Borgin Dandong stendur við Yalufljót, sem kom á tímabili daglega við sögu í fréttum í Kóreustríðinu.   En þessar fréttir muna bara elstu menn, eins og þar stendur. Þar voru andstæðurnar sláandi. Dandong blómleg kínversk borg í örum vexti en Norður Kóreu megin var eiginlega bara auðn og eyðimörk, þótt þar ætti að heita að vera borg. Spígsporandi vopnaðir hermenn, sem gengu gæsagang, höfðu gætur á árbakkanum, – gættu þess að enginn færi eða kæmi. Allt í algjörri niður niðurníðslu.

 

Á miðvikudagskvöld (04.02.2015) varð óvænt 15 mínútna hlé milli Gettu betur og Kiljunnar í dagskrá Ríkissjónvarpsins. Fyllt var upp í dagskrárgatið með allkyns dagskrárauglýsingum og (lítt áhugaverðum) tónlistarmyndböndum. Ekki sagt orð við hlustendur. Molaskrifari þekkir enga sjónvarpsstöð, sem kemur svona fram við áhorfendur,- enga.

 

Bókstafurinn -r- á það til að smeygja sér inn í orð þar sem hann ekki á heima. Í hádegisfréttum Ríkisútvarps (05.02.2015) var talað um æfingarbúðir á vegum Nató. Hefði átt að vera æfingabúðir. Vera á verði.

 

Borgarfulltrúi í Reykjavík, sagði í útvarpsviðtali (05.02.2015)     ,,Neyðarstjórn þarf að vera hands on , svo maður sletti nú”. Hann átti við, að neyðarstjórn (verið var að fjalla um bílaþjónustu fyrir fatlaða einstaklinga) þyrfti að vera með fingurinn á púlsinum, þyrfti að fylgjast grannt með. Ljót sletta og algjörlega óþörf.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>