Stúlkan hlaut stungusár á brjóstkassa., segir á vef RÚV (27.09.2008). Af hverju ekki að segja eins og var stúlkan var stungin í brjóstið? Í tíu fréttum RÚV sama dag var fjallað um þá sem missa atvinnuleysisbætur vegna svika og pretta. Sagt var að þeir dyttu af bótum. Þetta orðalag er barnamál sem ekki á heima í fréttum.
Fjármálaóveðrið er ekki byrjað að slota, bloggar sóknarprestur (28.09.2009). Veður slotar ekki. Veðri slotar. Þá má líka í fullri vinsemd benda klerki á að óveður geysar ekki. Það geisar. Þetta þykist Molaskrifari hafa lært í gagnfræðaskóla.
Útlit fyrir björtu veðri syðra, sagði veðurfréttamaður á Stöð tvö (28.09.2009). Það er ekki útlit fyrir einhverju. Það er útlit fyrir eitthvað. Þess vegna var útlit fyrir bjart veður eða bjartviðri syðra.
Svolítið þótti Molaskrifara einkennilega til orða tekið í fréttum RÚV (28.09.2009) þegar fréttamaður sagði að brestur væri á því að fyrirtæki skili ársreikningum. Ekki er Molaskrifari viss um að þetta sé rangt til orða tekið, en eðlilegra hefði verið að segja að misbrestur væri á því að fyrirtæki skiluðu ársreikningum.En orðið brestur, skortur, er frekar notað í samsetningum eins og aflabrestur eða uppskerubrestur.
Það er í senn fróðlegt og óhugnanlegt að fylgjast með fréttum af því hvernig æðstu innanbúðarmenn í SPRON, makar og náin ættmenni seldu og seldu stofnfjárhluti sína rétt fyrir hrun þegar þetta fólk greinilega vissi að ekki var allt með felldu. Grunlausir kaupendur töldu sig vera að kaupa í traustu fyrirtæki og töpuðu stórfé. Þetta þarf allt að koma upp á yfirborðið svo og tengsl hins svokallaða Sjóðs níu í Landsbankanum við þessi viðskipti. Þar í stjórn var einn af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, muni skrifari rétt. Allt þetta verður að koma fram í dagsljósið.



5 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
doddý skrifar:
29/09/2009 at 23:05 (UTC 0)
ég þekki ekki þennan tungljarðveg en mér dettur í hug að hér sé um myndlíkingu að ræða. kv d
Haukur Kristinsson skrifar:
29/09/2009 at 15:30 (UTC 0)
Tungljarðvegur. Það gengur auðvitað ekki. Best er að tala bara um efni af yfirborði tungslins.
Silja skrifar:
29/09/2009 at 13:28 (UTC 0)
Í frétt um árásina í Keflavík sagði fréttakonan að stúlkan hefði verið stungin þegar hún opnaði útidyrahurðina heima hjá sér. Það fór í taugarnar á mér.
Eiður Svanberg Guðnason skrifar:
29/09/2009 at 11:28 (UTC 0)
Sæll, Ólafur Ingi. Rétt er það hjá þér að orðið tungljarðvegur er ekki rökrétt. Mér er hinsvegar í fljótu bragði ekki ljóst hvaða orð ætti að nota í þessu tilviki.
Ólafur Ingi Hrólfsson skrifar:
29/09/2009 at 10:20 (UTC 0)
Þakka þér fyrir að halda vöku þinni – brengluð setningaskipan – og röng notkun orða – tel ég að muni að lokum fara þannig með málið okkar að hér verði talaður blendingur af erlendum orðum og orðskrípum.
Þekkir þú orðið – tungljarðvegur ? Ég hélt að jarðvegur væri jarðbundinn.
Kveðjur
Ólafur I Hrólfsson