«

»

Molar um málfar og miðla CLXIII

 Eftirfarandi stendur í Vefdv (29.09.2009): Þær höfðu sætt ofsókna í tíu ár. Undarleg og illskýranleg ambaga. Þær höfðu sætt ofsóknum í tíu ár. Meira úr Vefdv: …eyddi að minnsta kosti 331 dag í að skoða klám á tölvunni ... Rétt væri : …eyddi að minnsta kosti 331 degi í að… 

Af vef RÚV (29.09.2009): Nýjum handverkfærum var stolið í innbroti í fyrirtæki á Viðarhöfða í Reykjavík í nótt. Af hverju handverkfærum? Af hverju ekki verkfærum?

 

Á vef RÚV er sagt frá ákvörðum umhverfisráðherra  í tengslum við svokallaða suðvesturlínu og umhverfismat. Dálítið sérstakt er að bæði á vef RÚV og í Vefmogga er talað um að málinu hafi verið vísað aftur til Skipulagsstofnunar til efnilegrar meðferðar. Í fréttatilkynningu ráðuneytisins er réttilega talað um efnislega meðferð, sama er gert á Vefvísi. Vefvísir skrifar reyndar um háspennulínu milli Hellisheiði og Helguvíkur. Á auðvitað að vera milli Hellisheiðar og Helguvíkur. Kannski hefur  RÚV afritað fréttina að vefmogga  eða Vefmoggi af vef RÚV. Hæpið að þessi aulavilla á tveimur stöum sé tilviljun ein.

 Rúða í Lífeyrissjóði Vestmannaeyja brotin,  skrifar Vefvísir (29.09.2009). Það er nýtt að rúður séu í lífeyrissjóðum.  Molaskrifari reynir að vera málsvari íslenskrar tungu eftir getu. Á þessu stigi máls sér hann ekkert athugavert við að spurningar og svör vegna aðildarumsóknar að ESB séu á ensku. Þetta er ekki það sem skiptir sköpum í væntanlegum viðræðum. Þeir sem klifa mest á því að allar spurningar og svör verði þegar í stað að þýða er einna helst þeir sem eru andstæðingar aðildar og vilja drepa málinu á dreif. Morgunblaðið telur að ríkisstjórnin vilji með þessu fela eitthvað fyrir þjóðinni. Kjánaskapurinn í kringum þetta nær hámarki í eftirfarandi setningu Staksteina (29.09.2009) Morgunblaðsins í dag. Tæpast er það ætlun ríkisstjórnarinnar að umræða um aðild Íslands að Evrópusambandinu fari fram á ensku hér á landi. Heldur Staksteinahöfundur að lesendur blaðsins séu fífl ? Ég bíð þess að Morgunblaðið geri þá kröfu að öll okkar samskipti við umheiminn fari fram á íslensku. Það ríður ekkert við einteyming hjá Mogga í þessum efnum. Nær væri blaðinu að huga að málfari á eigin síðum og í eigin netmiðli. Þar má ýmislegt bæta. Eins og dæmin sanna. Úr Vefmogga (28.09.2009): Föngunum tókst að búa sér til holu í stálgirðingu sem umkringdi klefa þeirra..!  Hola í stálgirðingu ! Mjög  athyglisvert. Efnistök Kastljóss RÚV eru á stundum einkennileg. Stutt er síðan skórinn var níddur niður af Ragnari Önundarsyni,núverandi stjórnarformanni Lífeyrissjóðs verslunarmanna án þess að honum væri gefinn kostur á bera hönd fyrir höfuð sér. Í Kastljósi (28.9.2009) var fenginn fjármálasérfræðingur til að fjalla um væntanlegar tillögur félagsmálaráðherra og ríkisstjórnarinnar til aðstoðar skuldsettum heimilum. Sá taldi þetta allt einskis virði og mest sjónhverfingar, en er það ekki rétt að tillögurnar hafa ekki enn séð  dagsins ljós eða verið birtar í heild ? Eru þetta fagleg og vönduð vinnubrögð?

3 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Karl skrifar:

    Það er rétt sem Eiður segir hér. Furðulegt er að Mogginn geri slíkar athugasemdir þegar blaðið getur ekki einu sinni skilað fréttum á sæmilegri íslensku til lesenda.

    Uppsagnirnar eru greinilega teknar að hafa áhrif. Málfar á mbl.is er í stöðugri afturför og Mogginn er beinlínis illa skrifaður.

    Þetta fæst með því að segja upp hæfileikafólkinu en láta óreynda og lítt menntaða krakka um fréttaskrifin.

    Hægfæra dauði bíður blaðsins.

  2. Bjarni Sigtryggsson skrifar:

    Það er rétt, Eiður, að spurningar ESB og svör íslenskra stjórnvalda eru til þess að upplýsa ESB um íslensk lög og reglugerðir, stofnanir og verksvið þeirra, framkvæmd ýmissa tilskipana sem okkur hefur verið gert að taka upp vegna EES-samnings og upplýsa um margvíslegar hagtölur, rétt eins og spurningalistinn ber með sér, en hann hefur verið birtur í heild sinni á síðu utanríkisráðuneytisins. Mest af þessu er nú þegar til á íslensku en þarf skiljanlega að þýða á ensku, enda fara væntanlegar viðræður fram á því tungumáli.

    Þessi upplýsingamiðlun er aðeins undanfari viðræðna. Áður en til þeirra kemur verður mikil vinna hér heima við að setja samningsmarkmið á alls 35 sviðum. Öll ráðuneyti munu taka þátt í því og margar stofnanir leggja fram lið sitt. Enginn möguleiki yrði á því að slíkt vinnuplagg gæti farið fram hjá þjóðinni.

  3. Eiður Svanberg Guðnason skrifar:

     Enn gufuðu greinaskil upp ! Biðst velvirðingar á því.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>