«

»

Molar um málfar og miðla CLXXVI

  Prestar fylkjast um séra Gunnar, segir í fyrirsögn á Vefdv (14.10.2009). Sögnin að fylkjast er ekki til í íslensku. Hér hefði fyrirsagnarhöfundur átt að skrifa: Prestar fylkja sér um séra Gunnar. Það er góð og gild íslenska.

 Það var einkennilegt orðalag í fréttum Stöðvar tvö (14.10.2009) , þegar sagt var að tiltekinn rafmagnsbíll hefði farið eins og eldur sinu um bílasýningar í Evrópu. Sá sem skrifaði kann ekki að nota þetta gamla íslenska orðtak.

Úr Vefmogga  (I4.10.2009): ..   og skoðuðu þar fiskverkanir og vísindasetur. Fiskverkanir er fáránlegt orð sem er Mogunblaðinu ekki til sóma.

 

Tveir fyrrum fréttamenn, sem láta sér ekki standa á sama um málfar í fjölmiðlum, hafa sent Molahöfundi línur.  Vilhelm G. Kristinsson segir:

Beini til þín tvennu, sem fer mjög svo í taugarnar á mér um þessar mundir.

1. Nú er í tísku að segja líkt, í staðinn fyrir eins og.
Líkt og fram kom í blaðinu í gær, segja menn, í staðinn fyrir eins og fram kom í blaðinu í gær. Ég veit ekki hvaðan þetta kemur, ef til vill áhrif frá ensku.

2. Nú til dags vígja menn hitt og þetta. Séra Emil og frú Margrét Indriðadóttir brýndu fyrir okkur að það væru einungis vígðir menn sem vígðu. Aðrir tækju í notkun, opnuðu, eða renndu sér fyrstu ferðina í nýju skíðabrautinni.

 

Réttmætar ábendingar.

 Molaskrifari hefur gert fjölmiðlavígslurnar eilífu að umtalsefni. Torfi Erlendsson sýslumaður á Stafnesi á að hafa sagt þegar  Brynjólfur biskup vígði Hallgrím Pétursson: Allan andskotann vígja þeir. Réttara er að nota þetta um fjölmiðla samtímans,  því allan andskotann vígja þeir.  

 

Bjarni Sigtryggsson bendir á frétt á Vefdv (13.10.2009),en þar segir:

„Eiganda einbýlishúss sem stendur autt í Cypress skammt utan Houston í Bandaríkjunum grunaði að ekki væri allt með felldu í húsinu þegar hann sá ummerki innbrots þar á sunnudaginn. Hann heyrði raddir í húsinu og þegar lögregluna bar að garði fundust tveir menn inni í skáp. Einn þeirra var sofandi en hinn svaf svefninum langa.“

Hér er þrennt að athuga, en það er ekki fátítt þegar DV-skrifarar eiga í hlut:

1. Bandaríkin eru 50 talsins. Fleiri en ein borg, bæir eða borgarhlutar bera nafnið Houston. Þetta er svona svipað og að segja „skammt frá borginni Stadt“ í Evrópu.
2. Mennirnir voru tveir og þar af leiðandi hefur annar (tveggja) verið sofandi.
3. Í ljósi þess að einungis fundust tveir menn og annar þeirra látinn, þá hafa varla heyrzt „raddir“ í húsinu.

Í fréttinni er ekkert að orðalagi, engar málfarsreglur brotnar og engin ritvilla. En fréttaskrifin engu að síður dæmi um fljótfærni og hugsunarleysi.

 

Allt er þetta rétt, Bjarni.

Molaskrifari þakkar sendingarnar.

 

 

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Steini Briem skrifar:

    Sváfu tveir í Cypress,
    og soldið annar óhress,
    því dáldið var hann dauður,
    en drukkinn hinn og sauður.

  2. Eygló skrifar:

    … svo á hinn bóginn eru margir sem „undra sig“ á hinu og þessu

    Sig/sér =/=   -st

    Ó, æ, það er orðið svo vinsælt nýja lagið Bubba „Þegar mig kennir til“  æææææ. Það er eitt alverst þegar ljóða/lagatextar eru illa bilaðir. Þeir verða svo fjári langlífir.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>