«

»

Molar um málfar og miðla CLXXV

Í fyrirsögn í Vefmogga (14.10.2009) segir: Prentsmiðja lokar og vikublað hættir útgáfu. Ekki er mikilli móðurmálskunnáttu fyrir að fara hjá höfundi þessarar fyrirsagnar. Hverju lokaði prentsmiðjan?  Hvaða útgáfu hætti vikublaðið?   Réttara hefði verið:  Prentsmiðju lokað  og útgáfu vikublaðs hætt.Litlar kröfur um fagmennsku hjá Mogga þessa dagan.

Auglýsingar sækja að okkur úr öllum áttum. Allsstaðar. Molaskrifari fór að sjá kikmyndina um

Stúlkuna sem lék sér að eldinum. Frábær spennumynd og vel gerð.Bókina gat maður varla lagt frá sér á sínum tíma  fyrr en lestri var lokið. Það eina sem spillti ánægjunni voru tíu mínútna auglýsingar, tíu mínútna sýnishorn úr ósýndum kvikmyndum og tíu mínútna hlé. Í einni auglýsingunni var sagt: Breytti slys þínum aðstæðum? Þetta er ekki eðlileg orðaröð á íslensku. Eðlilegra væri að segja: Breytti slys aðstæðum þínum? Í annarri auglýsingu var sagt: Frír forréttur með aðalrétt af matseðli. Þetta er rangt. Orðið aðalréttur ætti að vera í þágufalli: .. með aðalrétti.

 Vefdv segir (12.10.2009) frá skæðri flensu sem herjar á nemendur grunnskólans á Fáskrúðsfirði og vitnar í aðstoðarskólastjóra: Hún segir flensuna hafa breiðst mjög hratt yfir nemendur skólans. Frekar þykir Molaskrifara ólíklegt að aðstoðarskólastjóri hafi notað þetta orðalag. Hefur sennilega sagt:..breiðst mjög hratt út meðal nemenda skólans.

Í þessari sömu frétt Vefdv segir einnig: Um helmingur barna í Grunnskóla Fáskrúðsfirði liggur nú í flensu .Grunur liggur á að um svínaflensu sé að ræða… Ekki  er talað um að  grunur liggi á  einhverju,  heldur er sagt að  grunur leiki á  einhverju. Sá sem  skrifaði þetta liggur  hinsvegar undir grun um að vera ekki vel að sér um málnotkun.

 Meira úr Vefdv (13.10.2009) : Sex þúsund Bandaríkjamenn deyja ár hvert af því að þeir senda SMS bak við stýri. Orðalagið bak við stýri hefur Molaskrifari aldrei heyrt. Það er hinsvegar aulaþýðing úr ensku: Behind the wheel. Á íslensku segjum við undir stýri, svo einkennilegt sem það nú er. 

Áhugamaður um málfar og miðla benti Molaskrifara á að þegar sýnt var frá landsleik Íslands og Suður Afríku (13.10.2009) skammstafaði RÚV nöfn landanna við markatölurnar ÍSL – RSA. Það síðarnefnda er ensk skammstöfun á  heiti  Suður Afríku , Republic of South Africa. Óþörf enskunotkun enn einn ganginn.

 

Úr Vefmogga (12.10.2009): Skv. upplýsingum frá íslenska utanríkisráðuneytinu hafa íslensk yfirvöld ekki fundið fyrir þrýstingi frá kínverskum stjórnvöldum vegna heimsóknar Dalai Lama, trúarleiðtoga Tíbeta, til Íslands í sumar. Tilefni fréttarinnar var að kastast hefur í kekki milli Dana og Kínverja vegna þess að forsætisráðherra Dana átti fund með Dalai Lama í sumar .

Einhverjir minnast þess að Fréttastofa RÚV sagði þá að sendiherra Kína hefði gengið á fund forseta Íslands og verið kallaður heim til Kína. Látið var í það skína, ef ekki sagt berum orðum, að það væri vegna heimsóknar Dalai Lama. Allt var þetta tóm tjara.

 

  Það var fyrrverandi sendiherra Kína á Íslandi sem var í einkaheimsókn á Íslandi og  fór í kurteisisheimsókn á Bessastaði. Þáverandi sendiherra Kína á Íslandi er er tiltölulega nýfarinn  héðan til trúnaðarstarfa fyrir land sitt  annarsstaðar og brottför hans héðan stóð ekki í neinu sambandi við heimsókn Dalai Lama. Þetta voru ekki traustvekjandi vinnubrögð hjá fréttastofu þjóðarútvarpsins.

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður Svanberg Guðnason skrifar:

    Já, fyrr má rota en dauðrota!

  2. Björn S. Lárusson skrifar:

    „Fyrr má nú vera en dauðrota“…..

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>