«

»

Molar um málfar og miðla 417

Úr dv. is (27.09.2010): …þegar hann ók einu af farartækjum fyrirtækis síns fram af klettabjargi. Að tala um að aka fram af klettabjargi er  bull.  Rétt hefði verið að tala um að  aka fram af klettum, eða að  aka fram  af bjargbrún.  Meira úr  dv.is sama  dag:  Deilur innan forystusveitar uppljóstrunarsíðunnar Wikileaks hefur orðið til þess að þýskur talsmaður síðunnar, Daniel Schmitt,…Deilur  hefur ekki orðið til þess… deilur  hafa orðið til þess, að…. Enn úr  dv.is: ….en það flæddi gríðarlega yfir veginn þar í gærkvöldi og við brúnna yfir Holtsá. Flæddi  gríðarlega yfir  veginn er ógott orðalag og sá sem skrifar um brúnna, er  líklega sá  sami  og  skrifaði um ánna í fyrradag.  Meira úr sömu frétt: Vatnsmagn í Svaðbælisá hefur minnkað verulegu og flýtur ekki yfir þjóðveginn lengur. Það var og.  Vatnsmagnið flaut yfir veginn !

Enn einu sinni skal hér minnst á  sögnina að opna. Ranglega sagði  fréttamaður Stöðvar tvö (27.09.2010) að  tónlistarhúsið  Harpa opnaði í maí á næsta ári. Tónlistarhúsið  opnar hvorki eitt né neitt. Það verður  opnað.  Rétt var með þetta farið í fréttum  Ríkissjónvarps.  Annars var frétt  Stöðvar  tvö um þetta svolítið kostuleg  því  sagt var að  Askenasí vonaðist til að Karl Bretaprins  kæmi á opnunartónleikana  sem Askenasí mun stjórna. Í fréttinni kom hinsvegar  fram að  Askenasí var að  láta í ljósi  von um að rétt stjórnvöld  hér á landi   byðu Bretaprinsi á tónleika.

Gera verður  þær  kröfur að málfar í fréttum  Ríkisútvarpsoins  sé   sæmilega  formlegt.  Kjánalegt var að  tala um (27.09.2010)  Búðahálsvirkjun ,sem eina  bestu framkvæmd sem Íslendingar hafi orðið vitni að  frá því eftir bankahrun.  Við höfum ekki  orðið vitni að  neinu í þessu sambandi.  Orðalagið  nokkur óvissa virðist hlaupin í  fyrirhugað álver  er ekki boðlegt og  heldur ekki  að tala um að álver  verði blásið af.  Þetta var svo allt  endurtekið í fréttum Ríkissjónvarps klukkan  sjö sem æ  oftar eru bara myndskreytt útgáfa sex frétta   Ríkisútvarpsins.

Velunnari  Mola  sendi  eftirfarandi úr  mbkl.is (28.09.2010):“Flugvélin er lítil Beech Craft Bonanza ferjuvél, sem var á leiðinni frá Sonderstrom á Grænlandi til Íslands.“Hann spyr: Er þetta ekki Syrði Straumfjörður ?  Auðvitað er það rétt til getið.  Landafræðikunnátta er ekki lengur til staðar á  ritstjórnum íslenskra fjölmiðla.  Molaskrifari leiðréttir  svo smáatriði. Vélin er af gerðinni BeechcraftBonanza.

 Í  fréttum Stöðvar tvö (27.09.2010) var  talað um 1,3 milljarð króna. Hefði átt  að vera  1,3 milljarða króna. Aukastafurinn  ræðu tölunni.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>