Úttekt Svavars Halldórssonar á hugsanlegum afdrifum landsdómsmála á Alþingi var skýr og vel fram sett í fréttum Ríkissjónvarps (26.09.2010). Sama má segja um samantekt um fyrirhugaða fangelsisbyggingu. Ótrúlegt hvernig það mál hefur velkst í kerfinu árum saman án þess að nokkuð gerðist.
Í þriggja línu feitletraðri ,tveggja dálka fyrirsögn í Morgunblaðinu (27.09.2010) segir: Segir samninga við kröfuhafa miða ágætlega. Hér hefði átt á standa: Segir samningum við kröfuhafa miða ágætlega. Eða: Segir samninga við kröfuhafa ganga ágætlega. Í fréttinni undir þessari fyrirsögn segir svo: Böðvar segir segir viðræðum við kröfuhafa ganga ágætlega. Ætti að vera:… segir viðræður við kröfuhafa ganga ágætlega. Ótrúlega áttavilltur blaðamaður sem skrifaði þessa frétt.
Í Morgunblaðinu (28.09.2010) segir: Kínverska sendiráðið Í Reykjavík óskaði þess af stjórnanda Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík,… Þessi notkun forsetningarinnar af stríðir gegn málvenju. Rétt hefði verið að segja: Kínverska sendiráðið óskaði þess við stjórnanda….. Eða, fór fram á á það við stjórnanda….
Ótækt orðalag í frétt á dv. is (26.09.2010): Rúta með 49 farþega keyrði á brú sem gengur yfir hraðbrautina og flaug í veg fyrir bíl sem kom úr gagnstæðri átt. Brú gengur ekki yfir hraðbraut. Brú er yfir hraðbraut.
Meira úr dv.is sama dag: .. .en miklir vatnavextir hafa verið á Suð- og Suðausturlandi í kjölfar rigninga og bráðnun jökla.Hér hefði farið betur á að segja: … miklir vatnavextir hafa verið á Suður- og Suðausturlandi í kjölfar rigninga og asahláku á jöklum. Enn er vitnað í dv.is: „Ég var að koma frá því að kanna aðstæður. Það virðist ennþá vera að bæta í ánna…“ Það bætir ekki i ánna heldur ána.
Hin skelfilega Hemma Gunn auglýsing frá Iceland Express er aftur kominn á skjáinn. Molaskrifari var að vona að hún væri komin í ruslakistuna. Molaskrifari er sannfærður um að hún fælir fólk frá því að versla við ferðaskrifstofuna. Þessi auglýsing er óendanlega hallærisleg.
Skildu eftir svar