«

»

Molar um málfar og miðla 416

Úttekt  Svavars Halldórssonar á   hugsanlegum afdrifum   landsdómsmála á Alþingi var skýr og vel fram sett í fréttum Ríkissjónvarps (26.09.2010). Sama má  segja um   samantekt um fyrirhugaða  fangelsisbyggingu. Ótrúlegt hvernig   það mál hefur velkst í kerfinu árum saman án þess að  nokkuð gerðist.

Í þriggja línu feitletraðri ,tveggja  dálka  fyrirsögn í Morgunblaðinu (27.09.2010) segir:  Segir  samninga við kröfuhafa miða ágætlega.   Hér hefði átt á standa:  Segir  samningum við kröfuhafa miða ágætlega. Eða: Segir samninga við kröfuhafa ganga ágætlega. Í fréttinni undir þessari fyrirsögn segir svo: Böðvar segir segir viðræðum við kröfuhafa  ganga ágætlega.  Ætti að  vera:… segir viðræður við kröfuhafa ganga ágætlega.  Ótrúlega áttavilltur  blaðamaður  sem  skrifaði þessa  frétt.

 Í Morgunblaðinu (28.09.2010) segir: Kínverska sendiráðið  Í  Reykjavík óskaði þess af stjórnanda Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í  Reykjavík,… Þessi notkun  forsetningarinnar af stríðir gegn málvenju.  Rétt hefði verið að segja: Kínverska sendiráðið óskaði þess við stjórnanda…..  Eða,   fór fram á á það við stjórnanda…. 

Ótækt orðalag í frétt á dv. is (26.09.2010): Rúta með 49 farþega keyrði á brú sem gengur yfir hraðbrautina og flaug í veg fyrir bíl sem kom úr gagnstæðri átt. Brú gengur ekki  yfir  hraðbraut. Brú er yfir hraðbraut.

Meira úr dv.is  sama dag: .. .en miklir vatnavextir hafa verið á Suð- og Suðausturlandi í kjölfar rigninga og bráðnun jökla.Hér  hefði farið betur á að segja: … miklir vatnavextir hafa verið á Suður- og  Suðausturlandi í kjölfar rigninga og asahláku á jöklum. Enn er vitnað í dv.is:  „Ég var að koma frá því að kanna aðstæður. Það virðist ennþá vera að bæta í ánna…“ Það bætir ekki i ánna  heldur ána.

 Hin skelfilega  Hemma Gunn auglýsing frá Iceland Express er aftur kominn á skjáinn. Molaskrifari var að vona  að hún væri komin í ruslakistuna. Molaskrifari er sannfærður um að hún  fælir  fólk frá því að  versla  við ferðaskrifstofuna.  Þessi auglýsing er  óendanlega hallærisleg.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>