«

»

Molar um málfar og miðla 415

Í fréttatíma Stöðvar tvö (25.09.2010) var sagt: Hann segist viljugur að veita Íslandi ráð.... Betra hefði verið: Hann segist fús til að veita Íslandi ráð. Eða,  hann segist reiðubúinn að veita Íslandi ráð.

Góðvinur Mola austur í  Moskvu sendi eftirfarandi:  „Beckham spilaði í 90 mínútur í nótt“ segir visir.is. Hið rétta er auðvitað að hann lék í 90 mínútur í gær. Leikurinn fór fram að degi til í Los Angeles þótt komin hafi verið nótt á Íslandi. Dagurinn er ekki samtímis á allri jörðinni eins og flestir vita. Það er orðið býsna algengt að fjölmiðlafólk taki til orða með svo villandi hætti.
kv.Molavin. Takk fyrir  þetta.  Sama villa var í Ríkissjónvarpsfréttum  (25.09.2010), þegar sagt var að utanríkisráðherra  hefði flutt  ræðu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í nótt. Þar hefði átt að segja að hann hefði flutt ræðu í gær.  Sem hann gerði.

Svo sem  Molalesendur flestir vita, er Molaskrifari  ekki  sérfræðingur á  sviði  fótbolta. Alltaf mislíkar honum , þegar sagt er að knattspyrnumaður hafi misnotað  vítaspyrnu ,   ef  markmaður  ver  vítaspyrnu frá honum. Rétt er að tala um að misnota   vítaspyrnu,  ef sá, sem  tekur  spyrnuna, hittir  ekki markið, brennir af , eins og sagt hefur verið í áratugi. Í hinu tilvikinu á að hrósa  markmanni fyrir  markvörsluna.  Það er engin misnotkun  á vítaspyrnu þótt markvarsla sé góð.

 Í fréttatíma  Ríkissjónvarps (25.09.2010) var  flutt brot úr ræðu utanríkisráðherra á Allsherjarþingi  Sameinuðu þjóðanna.  Ráðherra gerði   ástandið  Í Palestíu að umtalsefni.  Um mannréttindabrotin þar sagði hann:  …   where  human rights  are broken.  Nú er   utanríkisráðherra prýðilegur enskumaður, en hann semur ekki allar sínar ræður sjálfur.  Molaskrifari hallast því að  þarna hefði ráðherra átt að segja: … where  human rights are violated.   Minnist  þess ekki að hafa heyrt   tekið svona til orða  áður.  Á íslensku   tölum við um að brjóta mannréttindi. Það er ekki hægt að þýða orðrétt á ensku. Rights are violated but rules are broken.  En þetta er auðvitað bara smámunasemi og tuð hjá Molaskrifara.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>