Fréttir eiga gefa lesendum/hlustendum/áhorfendum rétta mynd af því ,sem um er fjallað. Í fréttayfirliti Stöðvar tvö (19.10.2010) var sagt: Nýtt frumvarp ríkisstjórnarinnar útilokar ekki að lánastofnanir geti elt skuldara út yfir gröf og dauða. Þarna skolaðist eitthvað til. Þeir sem um þetta fjölluðu hafa ekki skilið um hvað málið snerist. Í fréttinni kom svo fram, að í frumvarpinu verður gerð tillaga um að skuldir fyrnist almennt tveimur árum eftir gjaldþrot, þannig að ekki sé verið að elta skuldara út yfir gröf og dauða , eins og forsætisráðherra sagði. Málinu var alveg snúið á haus. Umsjónarmaður Rásar tvö í Ríkisútvarpinu (20.10.2010) sagði hinsvegar: .. út fyrir gröf og dauða !
Annað dæmi: Í fréttum Ríkissjónvarpsins (19.10.2010) var sagt frá fundi borgarstjórnar Reykjavíkur og sagt: Starfsmenn Orkuveitu Reykjavíkur gengu út. Starfsmenn Orkuveitunnar eru nokkur hundruð. Á myndskeiðinu sem sýnt var með fréttinni sáust 6-8 manneskjur ganga út. Er það frétt? Nei. Þarna var kannski ekki beinlínis verið að segja okkur ósatt, en engu að síður gaf þetta ekki rétta mynd af því sem myndin sýndi og því sem gerðist. Hið talaða orð gaf meira í skyn en í rauninni gerðist. Ófaglegt . Rétt er þó að halda því til haga , að seinna var í útvarpsfréttum sagt, að nokkrir starfsmenn Orkuveitunnar hefðu gengið af fundi.
Athygli Molaskrifara hefur verið vakin á því að Fréttastofa Ríkisútvarpsins hafi „afturkallað frétt“ eða dregið til baka frétt, þar sem skuldari lýsti því yfir , að hann teldi sig hafa fengið sanngjarna meðferð í kerfinu samkvæmt þeim úrræðum,sem ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir. Molaskrifari hefur ekki fundið fróðleik um þetta, en varla getur það verið að fréttastofan hafi dregið frétt til baka vegna þess að viðmælandi hélt fram skoðunum,sem ekki voru mönnum að skapi í Efstaleitinu. Því verður seint trúað. Fróðlegt væri að fá frekari upplýsingar um þetta.
Fréttamatið í Efstaleiti er stundum undarlegt. Það var fréttaefni tvö kvöld í röð , að ekki skuli gefið til baka í strætó í Reykjavík. Ótrúlegt. Svo fengum við líka ítarlega frétt um að gamall söluturn hefði verið á ýmsum stöðum í borginni. Stórfrétt.
Gísli Marteinn Baldursson borgarfulltrúi mælti fyrir tillögunni og sagði hann að heildstæður stígur af þessu tagi myndi auka verulega umhverfisgæði íbúa svæðisins.(mbl.is 19.10.2010) Heildstæður stígur! Nútíma kansellístíll. Stígur er þröngur vegur , slóði, afleggjari, vegur eða leið. Að tala um heildstæðan stíg er bara bull. Heildstæður vegur? Þarna hefði nægt að segja stígur. Sumum pólitíkusum finnst ef til vill meiri reisn yfir því að um heildstæðan stíg, en bara stíg. Svo er ekki.
Í frétt á mbl.is (20.10.2010) segir: Allar námsbækur verði nú á Mandarín,.. Það sem átt er við er , að allar námsbækur verði nú á kínversku. Það sem á ensku er kallað Standard Mandarin, er hið opinbera tungumál Kína og Taiwan. Þýðingarsnilld moggamanna er fræg að endemum, allar götur síðan á dögum Staff hershöfðingja, general staff.
Það er ekki öfundsvert hlutskipti fréttaþula í sjónvarpi að þurfa að lesa í mynd fréttir á borð við fréttina um slysið átakanlega í Tyrklandi. Ég fann til með þeim. Og öll finnum við til með þeim sem eiga um sárt að binda eftir þetta slys.
Skildu eftir svar