«

»

Molar um málfar og miðla 437

 Útvarp Saga hefur um langt skeið  einbeitt sér að rangfærslum og óhróðri um íslensku utanríkisþjónustuna. Stjórnendur leggja sig í líma við að varpa rýrð á utanríkisþjónustuna og það fólk sem þar starfar. Það er bót í máli, að flestir sæmilega viti bornir hlustendur láta Sögubullið sem vind um eyru þjóta.

 Það er verra og alvarlegra mál, að Ríkisútvarpið ohf skuli nú taka þátt í því að rægja utanríkisþjónustuna. Ríkisútvarpið er eign þjóðarinnar og  til þess  eru gerðar kröfur. Utanríkisþjónustan á auðvitað að þola gagnrýni eins og aðrar stofnanir ríkisins, en gagnrýni verður að vera málefnaleg, byggð á rökum og  staðreyndum. Í morgunþætti Rásar tvö í  Ríkisútvarpinu (20.10.2010) fóru  umsjónarmenn mikinn vegna  kaupa  á sendiherrabústað í London, sem kostar  rúmlega 800 milljónir króna.  Þeir fengu til  skrafs við sig þingmann Sjálfstæðisflokksins Kristján Þór Júlíusson,sem sæti á í fjárlaganefnd.

 Umsjónarmennirnir höfðu ekkert kynnt sér það mál, sem  þeir voru að ræða og  Kristján Þór Júlíusson  kaus að þegja yfir því sem hann hlaut að vita, sem fulltrúi  flokks síns í  fjárlaganefnd. Þeir fjösuðu fram og til baka um hversu dýrt hús væri  verið að kaupa, – líkt og  fasteignaverð í London væri  á sömu nótum og á Akureyri eða í Breiðholtinu ! Meiriháttar hneyksli !

   Staðreyndir málsins eru hinsvegar þær,  að  utanríkisráðuneytið seldi gamlan sendiherrabústað  við Park Street í London fyrir 1700 milljónir króna og keypti annan bústað  fyrir meira en helmingi lægri upphæð. Með þessum  viðskiptum skilaði utanríkisráðuneytið íslenska  ríkinu um 900 milljónum króna í hreinar tekjur. Örugglega var þetta stærsta hagræðingaraðgerð í öllum  ríkisgeiranum  árið 2009.  Þetta höfðu umsjónarmenn ekki haft fyrir að kynna sér, eða vildu ekki nefna, enda hefði það spillt málinu frá þeirra sjónarhóli séð. Þeir höfðu nefnilega persónulegar skoðanir á málinu,sem þeir lágu ekki á.  Kristján Þór Júlíusson alþingismaður kaus að  þegja rosalega þunnu hljóði. Hann vissi betur en þagði þó.

   Þá má  bæta því við, að áður  hafði utanríkisráðuneytið  skilað íslenska ríkinu  400  milljónum króna  með því að kaupa minni og ódýrari  sendiherrabústað í Kaupmannahöfn í stað  húss, sem ríkið hafði átt í áratugi. Og enn mætti segja frá því, að fyrir nokkrum ætlaði eigandi sendiherrabústaðarins í Peking að hækka húsaleiguna verulega. Samningur  við hann var ekki endurnýjaður. Minna og ódýrara hús var tekið á leigu. Slíkt þykir  auðvitað ekki fréttnæmt.

     Svona vinnubrögð eiga að vera brottrekstrarsök á alvöru fjölmiðli. En auðvitað gerist ekkert hjá Ríkisútvarpinu,  sem er  fyrir löngu orðið stjórnlaust rekald í íslenska fjölmiðlahafinu.

 Umsjónarmenn morgunútvarps Rásar tvö  (þessa sem grátbiðja Leitis Gróu Ríkiútvarpsins í Hollywood á hverjum föstudagsmorgni um meira slúður) á að leysa frá störfum. Þeir valda ekki starfinu. Kristjáni Þór Júlíussyni þingmanni Sjálfstæðisflokksins er hinsvegar  bara hægt að vorkenna.

  Hvað þýðir: Samkvæmt fyrstu heimildum fréttastofu? Þannig var tekið  til orða í  áttafréttum Ríkisútvarpsins (20.10.2010) Er þá líka  til eitthvað sem heitir   til dæmis  þriðju heimildir?

 Í fréttum Ríkissjónvarpsins (20.10.2010) var sagt, að Austurbæjarskólinn,(þar sem Molaskrifari stundaði nám frá 1947 til 1952)  væri  fyrsta húsið í Reykjavík ,sem  tengt hefði verið  hitaveitunni. Molaskrifari hefur jafnan heyrt að Hnitbjörg á Skólavörðuholti ,Listasafn  Einars Jónssonar, hafi fyrst  húsa fengið  yl frá  hitaveitunni.  Á netinu er að finna fullyrðingar  um þetta sem  stangast á . Gaman væri að vita hvort er rétt.

Þegar þessi skóli opnaði , sagði umsjónarmaður   morgunútvarps Rásar tvö (20.10.2010) í viðtali  vegna  afmælis Austurbæjarskólans í Reykjavík. Skólinn opnaði ekki neitt. Hann var opnaður, eða kennsla hófst í skólanum. Seint  holar dropinn steininn.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>