«

»

Molar um málfar og miðla 438

 Í fréttum Stöðvar tvö (20.10.2010) sagði fréttamaður: ….    en tæplega helmingur þess fjárhæðar var veittur að láni… Þeirrar fjárhæðar, –  að sjálfsögðu. Fréttamönnum,sem skrifa  svona texta á ekki að hleypa að hljóðnema,  nema  einhver sæmilegur íslenskumaður hafi  áður lesið textann.  

 Hingað eru að streyma fjórir milljarðar fjár, sagði Ásmundur  Einar Daðason stórfjárbóndi og  Alþingismaður í Kastljósi (21.10.2010). Honum er fé hugleikið. Í umræðum um arfavitlausa og gallaða tillögu um  þjóðaratkvæðagreiðslu um að slíta aðildarviðræðum fór hann mjög  halloka  fyrir Jóni Steindóri Valdimarssyni.  Enda hafði Ásmundur Einar vondan  málstað að verja. Hann vill fríverslun við  Bandaríkin, en  varla  þó með landbúnaðarvörur! Sigmari  umsjónarmanni  tókst hinsvegar að komast hjá því að nefna að tillagan um þjóðaratkvæðagreiðsluna var ekki þingtæk  vegna forgalla, sem  Vigdís Hauksdóttir, tillöguhöfundur, svo stórmannlega kennir starfsfólki Alþingis um.

  Úr  Íslandi í dag (21.10.2010):… segir  mýmörg  dæmi um að velstæðir Bandaríkjamenn ferðist til þróunarlanda til að versla sér líffæri, sagði fréttamaður. Enn eitt  dæmi um  fjölmiðlamann ,sem getur  ekki greint muninn á sögnunum  að versla og  að kaupa. Hér átti auðvitað að nota sögnina að kaupa,  en kannski má segja að glæpamenn versli  með líffæri.

Endalausar fréttir  íþróttadeildar í Efstaleiti af  þjálfaramálum  íþróttafélag,a smárra og  stórra,   benda til þess að  ráðamenn þar á  bæ  trúi því að þjóðin geti ekki lagst  til svefns að kveldi  nema vita allt um hin merkilegu þjálfaramál. Að ekki sé nú minnst á ítarlegar vangaveltur um einhvern Wayne Roonie, kvöld eftir kvöld.

 Morgunblaðið  olli Molaskrifara svolitlum vonbrigðum, þegar það  birti  ekki dagskrár norrænu sjónvarpsstöðvanna á sunnudeginum í laugardagsblaðinu  eins og  venjulega.  Oft er nefnilega  úrvalsefni á  boðstólum hjá  frændum okkar  á sunnudögum, fram til þessa hefur verið fátt um fína drætti á  ríkiseinokunarrásinni íslensku.

  Litla flugan hennar Lönu Kolbrúnar Edddóttur  var  fín  á föstudagskvöldið  (22.10.2010). Haukur Morthens  söng  lög, sem maður  heyrði fyrir  60 árum eða  svo og hefur  sum varla heyrt síðan. Vandaðar kynningar. Haukur bregst ekki , –  og Lana Kolbrún ekki heldur.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>