«

»

Molar um málfar og miðla 439

 Jafnan er fróðlegt að hlusta að rabb um daglegt mál í morgunþætti  Rásar eitt.  Í morgun (25.10.2010) spjölluðu umsjónarmaður (nú móðga ég konuna líklega) og  Aðalsteinn Davíðsson um notkun orðsins maður, sem  umsjónarmaður taldi gildishlaðið orð,sem ekki ætti að nota um konur. Aðalsteinn minnti réttilega á, að konur eru menn og vitnaði til orða  Vigdísar Finnbogadóttur í þá veru. Aðalsteinn rifjaði  líka upp að þegar Kvennalistakonur komust á þing vildu þær láta kalla sig  þingkonur, ekki þingmenn. Þetta þótti  Aðalsteini illfyrirgefanlegt. Það þykir Molaskrifara líka. Þetta  eru málspjöll.

    Fyrir mörgum árum skrifaði Molaskrifari Rabbdálk í Lesbók  Morgunblaðsins og gerði þessi mál að umtalsefni. Leyfir sér  að birta hér  glefsur úr þeim pistli ,svona í  tilefni dagsins:

„ Það ætti að vera hægt að heyja baráttu fyrir jafnrétti kynjanna  án þess að  móðurmálið gjaldi þess. Því miður  ganga áköfustu  talsmenn jafnréttis  stundum svo langt, að  það kemur niður á íslenskri tungu.

 Einkum hefur þetta orðið  áberandi eftir að konur hafa í  auknum mæli haslað sér völl á  nýjum sviðum og gengið til starfa  þar sem karlmenn voru næstum  einir fyrir  á fleti.

  

  Fyrir um það bil  hálfum fjórða áratug varð undirrituðum það á á  fundi í Blaðamannafélagi Íslands  að tala um blaðakonur. Risu þá  á fætur tvær mætar konur  úr stéttinni og sögðu  mér í allri vinsemd, en   með þunga þó,  að þær væru blaðamenn! Ég fékk  skömm í hattinn fyrir að nota orðið blaðakona og lærði mína lexíu.

 

Konur stýra nú í vaxandi mæli  þotum  Flugleiða. Þær, að ég best veit, eru  flugstjórar og flugmenn. Ekki flugstýrur eða flugkonur.  Um borð í  þotunum starfa flugfreyjur og  flugþjónar.  Gott mál.  Framkvæmdastjóri  Jafnréttisstofu kýs hinsvegar  að kalla sig    “framkvæmdastýru”. Næst heyrir maður væntanlega að kona sem er smiður ætti að kalla sig  smiðju !

 

Um nokkurt skeið reið orðið “starfskraftur” húsum  allra fjölmiðla,  þegar auglýst var eftir  fólki til starfa. Þetta var auðvitað  reginfirra , því þegar auglýst er eftir “starfsmanni” er  jafnt verið að falast eftir konum sem körlum.  Svo er það    annar handleggur af hverju  ekki má  auglýsa eftir konu  í tiltekið  starf,  ef  sá sem leitar starfsmanns kýs heldur að ráða konu en karl,eða andhverft.

 

Fyrir einhverjum árum varð umræða um  það í  engilsaxneskum fjölmiðlum að  helst mætti ekki nota nein orð  sem byrjuðu  eða enduðu á “man”.  Þannig mætti ekki tala um “manhunt”, ef lögreglan leitaði  konu. Ekki mætti segja að eitthvað væri “man-made”, gjört af mannahöndum og  svo framvegis. Þessi umræða gufaði fljótlega upp vegna þess að öllum var ljóst að hún leiddi  menn í málfarslegar ógöngur.  Hvað átti til dæmis að kalla”manhole” götubrunn eða mannop. “Personhole” eða kenna  það til kvenna? Þetta er  auðvitað    rugl.

 

Á sjöunda áratugnum  voru karlar farnir að starfa  við  hjúkrun í sjúkrahúsum á  Íslandi , þar sem konur höfðu áður verið næsta einráðar. Árið 1964  kom til umræðu á Alþingi að breyta nafni  Lífeyrissjóðs  hjúkrunarkvenna  í Lífeyrissjóð hjúkrunarkvenna og   hjúkrunarmanna.  Um það var ekki sátt. Höfundur þessa Rabbs  var þá  þingfréttaritari Alþýðublaðsins og hlustaði í þessum umræðum á Bjarna Benediktsson  forsætisráðherra  flytja  eftirminnilega  ræðu, en  Bjarna fórust svo orð:

 “Herra forseti.

Þetta þykir kannski of lítið  mál til að deila um, en ég vil alls ekki fallast á  það að konur séu ekki menn. Það er hrein málvilla,sem á fara að láta okkur samþykkja hér.  Það er latmæli,tekið upp á síðustu  áratugum , að kalla  konur ekki menn. Samkvæmt gamalli íslenskri málvenju  og algerri hefð eru konur auðvitað menn. Þess vegna er ekki hægt  að samþykkja þessa vitleysu, réttast væri að vísa henni  frá.”  (Alþingistíðindi 1964, áttugasta og fimmta löggjafarþing, B- deild,  dálkur 875)

 

 Þetta var engin tæpitunga. Betur að allar ræður á Alþingi væru svo skýrar og gagnorðar. Bjarni Benediktsson, talaði og ritaði   vandað  mál.Honum var annt um íslenska tungu.  Sitthvað hefði hann  örugglega haft að segja um orðið   “þingkona” sem  þingmenn Kvennalistans sáluga tóku  upp á sínum tíma og illu heilli hefur náð nokkurri útbreiðslu, meðal annars á síðum Morgunblaðsins.

Undirritaður  horfði á   og heyrði Bjarna Benediktsson flytja  þessa  ræða. Það  gleymist ekki. Honum var nokkuð niðri fyrir og þingheimur hlustaði grannt.

  …. 

Einhverja  fegurstu mannlýsingu  íslenskra bókmennta er að finna í Njálu  þar sem segir um Bergþóru,  konu Njáls:

 

“Hon var  Skarpheðinsdottir, kvenskörungr mikill ok drengur góður  ok nakkvat skaphörð”.

 Bergþóra var drengur góður. Það er  besta einkunn sem  hægt er að gefa nokkrum manni . Drenglyndi er auðvitað að finna  jafnt hjá körlum sem konum og notkun þess orðs hefur hreint ekkert með jafnrétti að gera. Þetta skilst vonandi  þeim sem  með forsjárlausu kappi  valda spjöllum á tungunni  með baráttu sem byggð er á misskilningi og röngum  forsendum.

 

Látum íslenska tungu ekki  verða fórnarlamb jafnréttisbaráttunnar. Í baráttunni fyrir  jöfnum rétti  karla og kvenna  skipta önnur atriði meira máli  en  orðanotkunin.“

 

 

     

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>