«

»

Molar um málfar og miðla 440

Dyr spennistöðvarinnar stóð opin, sagði fréttamaður  Stöðvar tvö , er hann las frétt um banaslys í  Lettlandi (23.102010) Fréttaþulur fór  hinsvegar rétt með þetta í inngangi. Dyrnar voru opnar.  Hvernig  væri að gera svolítið  meiri  kröfur  til þeirra sem  flytja okkur fréttir,  kröfur um sæmilega íslenskukunnáttu ? Í sumum fjölmiðlum var  talað um spennustöð, sem er ekki  í samræmi við viðtekna venju.

 Í sama fréttatíma Stöðvar tvö talaði fréttamaður um að syngja sálmasöngva!  Á íslensku  dugar alveg  að tala um að syngja sálma.

   Úr mbl.is (21.10.2010):…bréf þar sem hvatt er til að vegna öryggismála verði eldsneytisflutningar einungis heimilaðir um Hvalfjarðargöng utan dagtíma.  Hvernig hefði nú verið að að segja  á nóttunni í staðinn fyrir hörmungina utan dagtíma ?

   Úr dv.is (23.10.2010): Samkvæmt föður drengsins var sú skýring gefin…   Þetta finnst Molaskrifara ekki vel orðað. Hversvegna var ekki sagt:  Faðir  drengsins sagði, að sú skýring hefði verið gefin… Eða, að sögn föður drengsins  var ……  Það er orðinn býsna algengur ósiður  fjölmiðlamanna  að segja: Samkvæmt lögreglunni, samkvæmt þessum eða hinum. Ógott orðalag.

Molavin sendi Molum eftirfarandi: „Í þessari Morgunblaðsfrétt í dag, miðvikudag, er dæmi um að vanþekking á viðtengingarhætti sagna, sem breytir merkingu í frásögn: „Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað forsvarsmann fornbókaverslunar af ákæru fyrir hylmingu en honum var gefið að sök að hafa tekið við bókum, sem hann mátti vita að væru stolnar.“ Í þessari setningu fellur dómur þrátt fyrir sýknu. Honum er gefið að sök…þar sem hann mætti vita… Fullyrðingin var skilyrt.

Það færist því miður í vöxt að þeir, sem flytja þjóðinni fréttir og fróðleik dag hvern kunni ekki að beita móðurmálinu. Mjög er algengt að menn beygja nafnorð rangt í samsettum sögnum og þekkja ekki hina ýmsu hætti sagnorða. Öndvert við „reiðarekastefnu“, sem umber þekkingarleysi á beitingu móðurmálsins, ættu forvígismenn fjölmiðla að leggja metnað sinn í að þeir séu til fyrirmyndar úr því skólarnir hafa brugðist.
Það var þetta sem fyrstu umsjónarmenn þáttarins „Daglegt mál“ áttu við þegar þeir töluðu um „rangt“ mál eða „rétt.“ Þeir voru ekki að amast við fjölbreytileika eða staðbundnum venjum í orðanotkun, heldur þeim grundvallarreglum sem gera mál skýrt og rétt og koma þannig heilli hugsun til skila.“

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>