Það viðraði ekki vel til hátíðahalda á kvennafrídaginn, 25. október. Konur létu veðrið þó ekki aftra sér frá því að flykkjast þúsundum saman á Lækjartorg og Arnarhól. Kona, sem rætt var við í fréttum Stöðvar tvö, sagði að það væri mannskaðaveður. Svo var sem betur fer ekki. Mannskaðaveður er veður, sem veldur manntjóni. Ágæt var hinsvegar forsíðufyrirsögn Morgunblaðsins (26.10.2010): Um 50.000 konur börðust fyrir hitamálum í nístingskulda.
Athyglisverð var umfjöllun Svavars Halldórssonar í fréttum Ríkissjónvarps (25.10.2010) um brask þeirra Jóns Ásgeirs og Pálma Haraldssonar með fyrirtækið Iceland. Skítaflétta var það kallað. Áreiðanlega réttnefni. Átti þessi skítaflétta þeirra félaga með fyrirtækið Iceland sinn þátt í að setja Íslandið okkar á hliðina?
Úr dv.is (25.10.2010) : En verkamenn sem vinna nú að breytingum á lúxusheimili hans í London eru taldir hafa lokað morðmáli sem á rætur sínar að rekja aftur til ársins 1879. Á íslensku er ekki hægt að taka þannig til orða að máli hafi verið lokað. Það er hinsvegar hægt að orða hugsun með þeim hætti á ensku. Hér hefði til dæmis mátt segja, að talið væri að verkamenn hefðu leyst morðgátu frá árinu 1879.
Í þessari sömu frétt dv.is segir: Morðmálið hefur verið kallað Barnes-ráðgátan þar sem hin 29 ára gamla vinnukona, Kate Webster, á að hafa myrt Thomas með exi þegar yfirmaður hennar snéri aftur úr kirkju eitt sunnudagskvöld. Hér mætti gera að minnsta kosti tvær athugasemdir. Að tala um yfirmann vinnukonunnar er hallærislegt. Húsmóðir væri betra. Merking er líka óljós. Eru Thomas og yfirmaðurinn tveir menn? Í stað þess að segja, sneri aftur úr kirkju, væri betra að tala um að koma úr kirkju eða frá kirkju. Eitt sunnudagskvöld er óíslenskulegt. Betra væri að segja, að kveldi sunnudags. Líklega er þetta hrátt úr ensku: One Sunday evening.
Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (25.10.2010) sagði fréttamaður: Þyrlan hlekktist á…. Hann hefði betur sagt: Þyrlunni hlekktist á. Það er í samræmi við málvenju og er því rétt mál. Í sama fréttatíma var talað um fjallagöngumann. Málvenja er að segja: – fjallgöngumaður. Hinsvegar er talað um fjallamann og fjallageit. Ef góður íslenskumaður hefði lesið handrit þessara fréttamanna yfir, áður en fréttirnar voru lesnar fyrir okkur hlustendur hefðu þessar villur verið leiðréttar. Hvar var málfarsráðunauturinn?
Skildu eftir svar