Tapaði máli vegna Hólmsheiði ,segir í fyrirsögn á mbl.is (26.10.2010). Hér átti sá sem fyrirsögnina samdi að beygja örnefnið Hólmsheiði og hafa það í eignarfalli: Tapaði máli vegna Hólmsheiðar. Grunnskólavilla.
Béaður ársgrundvöllurinn var á sveimi í fréttatímum Ríkisútvarpsins (26.10.2010). Ársgrundvöllur er óþarft orð , miklu betra er að segja á ári , eða á einu ári. Þetta er eitt af fyrstu orðunum,sem Molaskrifari lærði að forðast á sínum byrjendaárum í blaðamennsku. Og ekki var betra þegar ágætur fréttaþulur Ríkissjónvarps sagði, að fé hefði skipt um hendur. Ómenguð aulaþýðing úr ensku. Fé hefur ekki hendur. Þess vegna getur fé ekki skipt um hendur.
Í fréttum Ríkissjónvarps var einnig sagt að sex manns hefðu brunnið illa. Molaskrifara hefði þótt betra að tala um að sex manns hefðu hlotið alvarleg brunsár eða brennst illa, ekki brunnið illa.
Vilja að stjórnvöld leggi sitt á vogaskálarnar, segir visir.is í fyrirsögn (25.10.2010). Hér ætti auðvitað að tala um vogarskálar , ekki vogaskálar. Vogarskál er önnur af skálum vogar, eins og segir í Íslenskri orðabók.
…hversu lítið þeir versla af slíkum vörum, sagði umsjónarmaður Kastljóss Ríkisútvarpsins við okkur (25.10.2010). Hann átti við hversu lítið væri keypt af slíkum vörum. Molaskrifari leggur til að málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins haldi fund með starfsmönnum fréttastofu og Kastljóss og skýri fyrir þeim muninn á sögnunum að kaupa og versla.
Svo sló klukkan tuttugu og fímm mínútur yfir tvö, sagði fréttamaður í Kastljósi (25.10.2010) Skrítin klukka það. Hef bara séð klukkur,sem slá á hálfa og heila tímanum.
…ef marka má Ragnar Aðalsteinsson verjandi fjögurra þeirra, sagði aðalþulur í fréttatíma Stöðvar tvö (25.10.2010). Orðið verjandi átti þarna auðvitað að vera í þolfalli. Fréttamaður tvítók síðan í fréttinni: Ragnar Aðalsteinsson vill meina. Betra hefði verið,ef hann hefði sagt: Ragnar Aðalsteinsson telur, Ragnar Aðalsteinsson er þeirrar skoðunar….
Morgunblaðið (28.10.2010) kallar turnhryllinginn í Túnunum eitt svipmesta kennileiti borgarinnar. Víst er um það að hvergi er hægt að horfa til borgarinnar úr grenndinni án þess að þessi ósköp gnæfi yfir allt og stingi í augu. Í augum Molaskrifara verður þessi turn aldrei annað en minnisvarði um óprúttna verktaka , sem keyptu sér veikgeðja stjórnmálamenn, sem voru tilbúnir til að eyðileggja ásýnd borgarinnar. Hástig pólitískrar spillingar.
Es. Fram kom í fréttum að turnhörmungin skyggði á innsiglingarvitann í turni Sjómannaskólans og þyrfti því að reisa nýjan vita með ærnum tilkostnaði. Ætlar Jón Gnarr að láta íbúa Reykjavíkur borga þann kostnað? Kannski ætti að tattúvera mynd af turninum á enni þeirra ,sem leyfðu þessi ósköp.
Skildu eftir svar