Úr frétt á mbl.is (27.10.2010): Þó eru nokkrir áhafnarmeðlimir sem völdu að sigla allt tímabilið. Molaskrifara finnst áhafnarmeðlimur vera orðskrípi. Þarna hefði auðvitað átt að tala um skipverja (ekki skipsverja eins og skrifað var á skjá Ríkissjónvarpsins í tíufréttum). Skrítið er líka að tala um að sigla allt tímabilið. Betra hefði verið að segja, – sem ákváðu að vera um borð allan tímann.
Af fréttavef Ríkisútvarpsins (27.10.2010): „Þá fundum við 30 tilfelli þar sem um var að ræða lyf eða náttúruefni, flest voru að völdum sýklalyfja en auk þess fjögur þar sem grunur lék á að að þetta væri að völdum Herbalife því það voru engin önnur lyf til staðar.“ Í þessari klausu er tvisvar sinnum sagt að eitthvað sé að völdum einhvers. Á auðvitað að vera af völdum einhvers. Síðar í fréttinni er talað um lifraskaða, – á að vera lifrarskaða.
Hagræðingin hjá Fréttastofu Ríkisútvarpsins gerir að verkum að nú heyrum við ambögurnar fyrst í útvarpsfréttum klukkan sex. Svo eru þær endurteknar í sjónvarpsfréttum klukkan sjö. Þannig var í báðum fréttatímunum (27.10.2010) talað um að tjaldi hefði verið slegið upp fyrir framan Mæðrastyrksnefnd. Hið rétta var, að tjaldi hafði verið slegið upp við húsakynni eða bækistöð Mæðrastyrksnefndar.
Í fréttum Stöðvar tvö talaði stjórnmálamaður um hreyfingu á sköttum. Hann var að tala um skattahækkanir. Stjórnmálamenn eiga að tala mannamál og nefna hlutina réttum nöfnum.
Í íþróttafréttum Ríkissjónvarpsins var talað um að svara könnun og æfa reglulegar æfingar. Molaskrifara hefði hér þótt betra að tala um að taka þátt í könnun og að æfa reglulega.
Skildu eftir svar