«

»

Molar um málfar og miðla 445

Stundum fara menn of langt í beygingum. Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (30.10.2010) var  sagt  frá  frumflutningi nýfundinna verka eftir  Sveinbjörn Sveinbjörnsson, höfund þjóðsöngsins Ó,  Guðs vors lands. Þarna hefði fréttamaður átt að segja: Höfund þjóðsöngsins Ó, Guð  vors lands.

 Sprengjan var ein tveggja, sem … var sagt í tíufréttum Ríkisútvarpsins (30.10.2010).  Rétt hefði verið að segja: Sprengjan var önnur tveggja, sem …

  Pólskt skip í neyð, sagði í fyrirsögn á mbl.is (30.10.2010). Ef sérviska Molaskrifara hefði fengið að ráða, hefði fyrirsögnin verið: Pólskt skip í nauðum. Að vera í nauðum er að eiga í erfiðleikum. Í fréttinni segir  svo meðal annars: Nærliggjandi skip hröðuðu sér á svæðið … Ekki gerir Molaskrifari  ráð fyrir, að  skip hafi legið við akkeri  úti á  reginhafi. Hér hefði því farið betur á að  tala um  skip í grenndinni,  nálæg  skip  eða  nærstödd  skip.

 Þátturinn Landinn,sem sýndur er í Ríkissjónvarpinu á sunnudagskvöldum  er oft ágætur. En hversvegna er þessi þáttur  svo endursýndur þrisvar sinnum? Það er  furðuleg dagskrárgerð. Má  vera  að þessar endursýningar séu launatengdar. Er  það svo ? Kannski  er það leiðin til hagræðingar og sparnaðar hjá  Ríkisútvarpinu, að sýna alla þætti fjórum sinnum eins og Landann ?  Það er líka furðuleg dagskrárgerð að endurtaka dægurmálaþáttinn Í vikulokin klukkan ellefu á laugardagskvöldi. Þá  vilja  líklega  flestir  hlustendur Rásar eitt hlusta á þægilega  tónlist. Sigvaldi Júlíusson fær sérstakar fyrir fyrir  smekklega valda  tónlist úr þularstofu.

 Listinn yfir  frambjóðendur til stjórnlagaþings er fróðleg lesning og kennir  þar margra grasa, – liggur við að þar séu heilu fjölskyldurnar. Spaugilegast af öllu er að heyra  einn  frambjóðanda, yfirsnillinginn í Útvarpi Sögu , sem lætur móðan mása  nær allan sólarhringinn , tala eins og þegar sé  búið að kjósa hann á stjórnlagaþingið !   Svo bullar hann út í eitt  með lagskonu sinni  um  skipun  neyðarstjórnar og að færa eigi Ólafi Ragnari einræðisvald.

 Svo væri gott að losna við miðnætursímtöl  frá Pétri Gunnlaugssyni, Útvarpi Sögu. Arnþrúður hótaði konu minni. Nú er Pétur farinn að hringja í mig um miðnættið. Þetta fólk kann enga mannasiði.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>