Bók Arnaldar beðið með eftirvæntingu,segir í fyrirsögn á visir is (31.10.2010). Bók er ekki beðið. Bókar er beðið. Líklega hefur sá sem samdi fyrirsögnina verið hræddur við að skrifa: Bókar Arnaldar beðið með eftirvæntingu. Þessu var svo breytt í rétt horf er leið á daginn.
Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (31.10.2010) var í fréttayfirliti talað um staðráðna starfsmenn. Átt var við staðarráðna starfsmenn, það er starfsmenn sendiráða, sem ekki eru starfsmenn utanríkisráðuneytisins í Reykjavík, heldur eru heimamenn í því landi þar sem viðkomandi sendiráð er. Að vera staðráðinn í einhverju er að hafa einbeittan vilja til einhvers.
Í texta með viðtali í Silfri Egils (31.10.2010) var sagt Íslendingar gruna… Af samhenginu telur Molaskrifari líklegt að þarna hefði átt að standa: Íslendinga grunar ….. Á þessu tvennu er merkingarmunur.
Líklega hefur ferðaskrifstofan Iceland Express skipt um auglýsingastofu. Allt annað að sjá og heyra sjónvarpsauglýsingarnar þeirra undanfarna daga.
Það er nýlunda að geta gefið efni,sem sýnt er í Ríkissjónvarpinu, margar stjörnur. Mynd þeirra Hjálmtýs Heiðdals og Karls Smára Hreinssonar , Saga af stríði og stolnum gersemum (31.10.2010) var stórmerkileg. Einkennilegt er hvernig þetta mál hefur legið í láginni. Eftir á að hyggja eigum við við bara einn kost: Skilum þessum þjóðargersemum til Bretlands (Danir skiluðu okkur handritunum). Ekki er við hæfi að við skreytum guðshús okkar með þýfi. Kirkjan á að taka á þessu máli og leiða það til lykta. Ef menn sakna glugganna er einfalt og væntanlega ekki dýrt að gera af þeim eftirlíkingar. Þessir gluggar eiga sér enga sögulega hefð í rótum trúarlífs á Íslandi. Þeim var stolið í stríði og skolaði yfir haf til Íslands. Skilum þeim. Það væri stórmannlegra en að sitja undir þeim við bænagjörðir og blessunarorð.
Skildu eftir svar