Um helgina heyrði Molaskrifari í útvarpi talað um að brýna sög. Nú er Molaskrifari ekki sérfróður um málfar á þessu sviði frekar en öðrum, en hann hefur ævinlega heyrt talað um að skerpa sög, þegar sög er farin að bíta illa. Má vera að hér sé málvenja mismunandi eftir landshlutum og auðvitað er ekkert rangt við að tala um að brýna sög svo hún bíti betur.
Gott hjá mbl.is (02.11.2010) að nota orðið jarðfall um það sem í fréttum Ríkissjónvarpsins var kallað hola. Orðabókin segir um jarðfall: Gil eða lægð sem myndast þegar jarðvegi skolar burt undan yfirborðinu og yfirborðið fellur síðan niður.
Í spjalli um daglegt mál í morgunútvarpi Rásar eitt (01.11.2010) voru þau sammála um það Aðalsteinn Davíðsson og Hanna G. Sigurðardóttir að fráleitt væri að tala um að selja til. Þessu er Molaskrifari ósammála. Hann sér ekkert rangt við að segja, til dæmis: Skipið var selt til Bretlands. Við seljum herta þorskhausa til Nígeríu.
Í fréttum Ríkissjónvarpsins (01.11.2010) var kynntur 80 ára gamall vals eftir Ása í Bæ. Það var áhugavert, en gallinn var sá að aðeins heyrðust slitrur úr laginu. Lagið,eða heila tónhendingu, heyrðum við í rauninni aldrei.
Kröfugerðir hafa ekki verið endanlega mótaðar, var sagt í fréttum Ríkissjónvarpsins (01.11.2010). Betra hefði verið að tala um kröfur en kröfugerðir.
Alvar Óskarsson, gamall ráðherrabílstjóri Framsóknar,sem hringir til Útvarps Sögu oft á dag uppnefndi og baknagaði hvern einstaklinginn á fætur öðrum í þætti Péturs Gunnlaugssonar í dag (01.11.2010) (Þess sem hringir í bláókunnugt fólk um miðnættið á laugardagskvöldum). Umsjónarmaðurinn sagði ekki orð. Gerði hvorki athugasemdir við uppnefni eða níð. Þagði sínu þunna hljóði á mánudagsmorgni.
Skildu eftir svar