Til varnar útrásarvíkinga, segir í millifyrirsögn á dv.is (02.11.2010). Þarna hefði átt að segja: Til varnar útrásarvíkingum.
Himinn og haf er milli frásagna Morgunblaðsins og DV (03.11.2010) af manninum,sem bera átti út á Laufásvegi í gær. Kjarninn í frásögn Morgunblaðsins er að bankinn hafi verið vondur við manninn. Ekkert er nefnt hve mikið hann skuldaði. Í frásögn DV kemur fram að þegar árið 2007 skuldaði maðurinn hundruð milljóna og fimmtíu milljónir í yfirdrátt. Hætt var við útburðinn, en rétt er að spyrja: Eru þeir sem skipa svonefnt Heimavarnarlið sérstakir varðmenn fyrir skuldakónga?
Þegar fréttamaður í Kastljósi Ríkissjónvarpsins (02.11.2010) talar um blóðugan niðurskurð í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2011, notar hann svo gildishlaðin orð, að frásögnin verður sjálfkrafa ófagleg..
Haukur Hólm ,fréttamaður Útvarps Sögu, fjallaði um kosningarnar í Bandaríkjunum og tók fram að verið væri að kjósa í öll 435 sætin í fulltrúadeildinni, 37 sæti í öldungadeildinni og 37 ríkisstjóra. Það var í fyrsta skipti,sem Molaskrifari heyrði kosningunum svo réttilega lýstí fréttum. Haukur fær plús fyrir það. Í fréttatímum sjónvarpsstöðvanna að kveldi kjördags var þetta reyndar skýrt út og farið með ofangreidnar tölur.
Því var slegið upp í fréttum Ríkissjónvarps (02.11.2010) að langflestar beiðnir um nauðungaruppboð kæmu frá Íbúðalánasjóði. Þetta var hinsvegar ekki sett í samhengi með því að segja okkur hve stór hlutur Íbúðalánasjóðs í fasteignalánum er. Íbúðalánasjóður er líklega langstærsti lánveitandinn til kaupa á fatseignum og því eðlilegt að vanskil séu mest þar. Enn eitt dæmið um ófagleg vinnubrögð fréttastofu ríkisins.
Nýr dagur hefur bæst í vikuna. Miðkudagur.Þannig var það að minnsta kosti orðað í auglýsingu Fjölskylduhjálparinnar í Útvarpi Sögu (02.11.2010) Auglýsingalesarar mega ekki misþyrma móðurmálinu.
Ríkissjónvarpið keppist nú við að auka hluta íþróttaefnis í kvölddagskránni á kostnað annars efnis. Þetta er gert í vonlausri samkeppni við Stöð tvö um sýningu íþróttaefnis.
Í íslenskri orðabók segir um orðið skoðanakönnun: Skipuleg athugun á skoðun almennings á tilteknu máli. Það sem ráðamenn Útvarps Sögu kalla skoðanakönnun á ekkert skylt við þetta. Þau skrumskæla orðið. Vinnubrögðin eiga ekkert skylt við skoðanakönnun. Slæmt að fjölmiðill skuli komast upp með að eyðileggja orðið skoðanakönnun.
Skildu eftir svar