«

»

Molar um málfar og miðla 448

Til varnar útrásarvíkinga, segir í millifyrirsögn á dv.is (02.11.2010).  Þarna hefði átt að segja: Til varnar útrásarvíkingum.

Himinn og haf er milli frásagna Morgunblaðsins og  DV (03.11.2010) af manninum,sem bera átti út á Laufásvegi í gær.  Kjarninn í frásögn Morgunblaðsins er að bankinn hafi verið vondur við manninn. Ekkert  er nefnt  hve mikið hann skuldaði. Í frásögn DV kemur  fram að þegar árið  2007  skuldaði maðurinn hundruð  milljóna og    fimmtíu milljónir í yfirdrátt. Hætt var við útburðinn, en rétt er að spyrja:  Eru þeir sem  skipa svonefnt  Heimavarnarlið  sérstakir  varðmenn fyrir skuldakónga?

Þegar fréttamaður í Kastljósi Ríkissjónvarpsins (02.11.2010) talar um  blóðugan niðurskurð í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2011, notar hann svo gildishlaðin orð, að frásögnin verður sjálfkrafa ófagleg..

  Haukur Hólm ,fréttamaður Útvarps Sögu, fjallaði um kosningarnar í Bandaríkjunum og   tók fram að verið væri að kjósa    í öll  435 sætin  í fulltrúadeildinni,  37 sæti í öldungadeildinni og  37 ríkisstjóra. Það var í fyrsta skipti,sem Molaskrifari heyrði kosningunum  svo réttilega lýstí fréttum.  Haukur fær  plús fyrir það. Í  fréttatímum sjónvarpsstöðvanna að kveldi kjördags var þetta reyndar skýrt út og farið með ofangreidnar tölur.

Því var slegið upp í fréttum Ríkissjónvarps (02.11.2010) að langflestar beiðnir um  nauðungaruppboð kæmu frá Íbúðalánasjóði.  Þetta var hinsvegar ekki sett í samhengi með því að  segja okkur  hve  stór  hlutur Íbúðalánasjóðs í  fasteignalánum  er.  Íbúðalánasjóður er líklega   langstærsti lánveitandinn   til kaupa á fatseignum og því eðlilegt að vanskil séu mest þar. Enn eitt  dæmið um ófagleg vinnubrögð  fréttastofu ríkisins.

Nýr dagur hefur  bæst í vikuna. Miðkudagur.Þannig var  það að minnsta kosti orðað í auglýsingu Fjölskylduhjálparinnar í Útvarpi Sögu (02.11.2010) Auglýsingalesarar mega ekki misþyrma móðurmálinu.

 Ríkissjónvarpið keppist nú  við að auka hluta íþróttaefnis í kvölddagskránni  á kostnað annars efnis. Þetta er gert í vonlausri  samkeppni  við Stöð tvö um sýningu íþróttaefnis.

 Í íslenskri orðabók segir um orðið skoðanakönnun: Skipuleg athugun á skoðun almennings á  tilteknu máli. Það sem ráðamenn  Útvarps  Sögu  kalla skoðanakönnun á ekkert skylt  við þetta. Þau skrumskæla orðið. Vinnubrögðin eiga ekkert skylt við skoðanakönnun. Slæmt að fjölmiðill  skuli komast upp með að eyðileggja orðið skoðanakönnun.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>