Úr visir.is (02.11.2010) Ekki er um eiginlega fjársöfnun að ræða, heldur samskot sem voru tekin einu sinni. Á íslensku er ekki talað um að taka samskot. Eðlilegra er að tala um að efna til samskota, þegar fé er safnað handa einhverjum sem er fjár vant.
Nú erum við að tala saman, sagði fréttamaður Stöðvar tvö (02.11.2010) með fullan munninn af mat frá kokkalandsliðinu. Þetta var öldungis óþörf tilvísun í bandaríska málvenju. Svo þykja það nú ekki góðir mannasiðir að tala með fullan munninn af mat.
Hvað er fréttastofa Ríkisútvarpsins að segja okkur, þegar með frétt um Icesavemálið (03.11.2010) er birt birt mynd af Icesave-kaffimáli, sem liggur á hliðinni við hálfblauta servíettu? Hvað eigum við áhorfendur að lesa í þetta? Enn eitt dæmið um ófagleg og óboðleg vinnubrögð í Efstaleitinu.
Hluti verðlaunafjárins verður ánafnað sjálfbærri bankastarfsemi á Íslandi, skrifar mbl.is (03.11.2010) Málvenja er að ánafna einhverjum eitthvað. Þess vegna hefði þarna betur staðið: Hluta verðlaunafjárins verður ánafnað sjálfbærri bankastarfsemi á Íslandi. En hvað er átt við með sjálfbærri bankastarfsemi? Er verið að hæðast að okkur ? Minni á að Færeyingar kalla hraðbankana sjálvtökur.
Þegar hlaupið nær hámarki sínu var sagt í sjónvarpsfréttum Ríkisútvarpsins (03.11.2010). Þarna hefði mátt sleppa orðinu sínu. Því var ofaukið. Í sömu frétt var rætt við mann sem titlaður var rafveituvirki. Það virðulega starfsheiti hefur Molaskrifari aldrei áður heyrt.
Molavin sendi eftirfarandi: „ Veiðimenn klaga hvor aðrasegir Pressan um klögumál rjúpnaveiðimanna á fjórhjólum. Væntanlega eru skyttur fleiri en tvær, svo ég tel að betur færi á því að segja „Veiðimenn klaga hver annan.“ Reyndar er þessi frétt aðeins tilvitnun í netmiðlinn Skessuhorn, en þar er sagt, orðrétt: “ Einnig hafa veiðimenn verið að klaga hvern annan.“ Ég kann því heldur ekki vel. Nema þessir menn væru að klaga „annan hvern“ veiðimann.“
Skildu eftir svar