Það er óbreytt menningarleg reisn yfir dagskrá Ríkissjónvarpsins. Frá klukkan 20 00 á fimmtudagskvöldi (04.11.2010) til klukkan 23 05 var okkur áhorfendum boðið upp á fjórar bandarískar þáttaraðir í beit. Þá tók við endursýndur norskur þáttur. Þetta er ótrúlegt, – en satt.
Komu upp um leynileg göng, segir í fyrirsögn á mbl.is (04.11.2010). Hér hefði verið eðlilegra að tala um að laganna verðir hefðu fundið leynigöng , fremur en að þeir hefði komið upp um þau. Göngin lágu undir landamæri Bandaríkjanna og Mexíkó og um þau var smyglað eiturlyfjum. Svo segir í fréttinni: Að sögn lögreglu voru göngin notuð af smyglurum til að flytja fíkniefni yfir landamærin. Þolmyndarnotkunin í þessari setningu er óþörf. … smyglarar notuðu göngin til að flytja eiturlyf …Ef til vill hefði verið eðlilegra að segja að göngin hefðu verið notuð til að flytja eiturlyf undir landamæri ríkjanna.
Í fyrirsögn á forsíðu Fréttablaðsins (04.11.2010) segir: Elsti og yngsti fulltrúinn á þjóðfundinum eru bjartsýnir á skynsama niðurstöðu. Molaskrifari hallast að því að ekki eigi að tala um skynsama niðurstöðu, heldur skynsamlega niðurstöðu. Oft heyrist talað um skynsama leið, eða skynsaman kost þegar betra væri að tala um skynsamlega leið eða skynsamlegan kost..
Meira um Fréttablaðið. Ekki er Molaskrifari ánægður með fyrirsögnina á grein Guðna Ágústssonar í blaðinu (04.11.2010): Íslenskt smjör og skyr: „I love it“. Guðni vinur minn er að lofsyngja , að verðleikum, ágæti íslenskra landbúnaðarafurða. Við þær er allt gott, — nema verðið. (Lambakjöt er nú bara á borðum á hátíðum) Guðni hefði þess vegna átt að láta móðurmálið duga í fyrirsögn á greinina. Annars ætti það að vera íslenskum bændum tilhlökkunarefni að ganga í Evrópusambandið því þá fá frábærar afurðir eins og smjör og skyr mörgþúsundfaldan markað miðað við það sem nú er. Íslenskir bændur með sínar ágætu afurðir hafa ekkert að óttast. Það gæti hinsvegar orðið erfitt að anna eftirspurn og verðið sem þeir fengju mundi rjúka upp úr öllu valdi. Vonandi skrifar Guðni bráðum um það.
Oft hefur verið vikið að því hér hve litlar kröfur um málfar eru gerðar til þeirra sem annast morgunþátt Rásar tvö í Ríkisútvarpinu. Í morgun (04.11.2010) var þar talað um ágæti málstaðs, – átti auðvitað að vera málstaðar, sem er rétt eignarfall af orðinu málstaður. Einnig var talað um að spá í einhverju, en málvenja er að tala um að spá í eitthvað, rétt eins og talað er um að spá í spil og spá í kaffibolla. Orðabókin bendir að vísu á að spá í e-u sem óformlegt mál. Engin ástæða er til að hefja það til vegs í útvarpi. En þetta er það sem hlustendum er boðið, þegar metnaður er ekki til staðar.
Þegar Sturla Jónsson og Arnþrúður útvarpsstjóri segja hlustendum Útvarps Sögu að móttaka vegna Norðurlandaráðsþings fyrir 400-500 manns, að þeirra sögn, hafi kostað 50 milljónir halda þau greinilega að hlustendur séu fífl. Á boðstólum voru , sögðu þau, snittur, bjór, freyðivín , sódavatn og gos. Ef 500 manns sóttu móttökuna og hún kostaði 50 milljónir, þá hefur kostnaðurinn verið 100 þúsund krónur á hvern gest. Hver trúir því ? Hlustendur er ekki fífl, ekki allir. En Í Útvarpi Sögu þarf þetta ekki að vera svo nákvæmt ef verið er að böðlast á þeim sem stöðin hefur ekki velþóknun á.
Skildu eftir svar