Er að – fárið breiðist út. Meistaranemi við Háskólann á Akureyri, sem svaraði spurningum í morgunþætti Rásar eitt (04.11.2010) var illa haldinn af þessari óværu. Nokkur dæmi: Það fyrsta sem ég er að sjá,… Við erum að standa nokkuð vel miðað við hin Norðurlöndin Í stað þess að segja : … börnunum líður vel… börnunum líður betur, sagði meistaraneminn: Börnunum er að líða vel, börnunum er að líða betur. Einnig heyrðum við: Þau svona finnast þau knúin… Þetta finnst Molaskrifara heldur slæmt. Tvisvar talaði þessi meistaranemi um hin Norðurlöndin.
Glæpasamtök hafa skotið niður rótum, segir á vefsíðu Ríkisútvarpsins. Ekki kannast Molaskrifari við þetta orðalag. Málvenja er að segja að eitthvað skjóti rótum, þegar það nær fótfestu. En að skjóta niður rótum er nýtt fyrir Molaskrifara.
Mjög algengt er að heyra og sjá á prenti að talað sé um hin Norðurlöndin Í góðu bréfi sem áhugamaður um velferð tungunnar sendi Molaskrifara segir hann meðal annars: „Algengt dæmi um rökleysu er orðalagið ‘hin Norðurlöndin’, ‘á hinum Norðurlöndunum’. Fleirtöluorðið Norðurlönd táknar í raun eitt óskipt landsvæði og ætti ætíð að vera án greinis. Hliðstæð eru orðin ‘Bandaríkin’ og ‘Vestfirðir’, og er gott að hafa mið af notkun þeirra. Orðið ‘Bandaríki’ er aldrei haft um hvert einstakt fylki í Bandaríkjum N-Ameríku og ‘Vestfjörður’ ekki heldur um hvern einstakan fjörð vestra. Ekki verður hvert og eitt hinna norrænuanda heldur kallað ‘Norðurland’. Engum er tamt að segja ‘í hinum Bandaríkjunum’ eða ‘á hinum Vestfjörðunum’. Sagt er ‘annars staðar í Bandaríkjunum’ eða ‘í öðrum fylkjum Bandaríkjanna’ og ‘annars staðar á Vestfjörðum’. Á sama hátt er rökrétt að skrifa ‘annars staðar á Norðurlöndum’ eða ‘í öðrum ríkjum á Norðurlöndum’.“
Bréfritari bendir á að betra sé að nota orðalagið: á öllum Norðurlöndunum,alls staðar á Norðurlöndunum eða annars staðar á Norðurlöndum. Undir þetta er tekið.
Þú kaupir þrjár vörur, en borgar fyrir tvær, segir í auglýsingu frá verslanakeðjunni Nettó. Molaskrifara finnst þetta vera málleysa. Betra væri að segja: Þú kaupir þrennt, en borgar bara tvennt.
Skildu eftir svar