Oft eru hæpnar fullyrðingar í auglýsingum. Í auglýsingu í Útvarpi Sögu segir, að niðursoðin þorsklifur lækki blóðsykur. Hvað segir landlæknir? Er þetta rétt? Eða er verið að blekkja fólk ? Í þessari útvarpsstöð úir og grúir af hæpnum fullyrðingum um svokölluð fæðubótarefni, sem stundum reynast mesta ólyfjan. Í sama miðli er talað um hátíðarmat í auglýsingu. Málvenja er að tala um hátíðamat.
Rýnt í stjórnarskránna, var letrað á skjáinn í fréttatíma Ríkissjónvarpsins (06.11.2010). Átti að vera stjórnarskrána. Líklega er þetta eðlilegt framhald af því að fréttamenn tala stundum um ánna, ekki ána, brúnna ekki brúna.
Úr mbl.is (06.11.2010):… upplýsingafulltrú Þjóðfundar, segir gaman að sjá hversu tímanlegt fólk sé. Þetta orðalag er nýtt fyrir Molaskrifara. Gott er að koma tímanlega, vera stundvís, en að vera tímanlegur hefur hann ekki heyrt áður. Auðvitað er ekki þar með sagt að þetta sé rangt, en virðist ekki í samræmi við málvenju.
Molavin í austri er iðinn við að senda okkur athyglisverðar ábendingar. Hann sendi þetta:
„Morgunblaðið (mbl.is) segir í frétt í gær, föstudag, sem hefur enn ekki verið leiðrétt, að Keith Olbermann, hinn kunni, pólitíski þáttastjórnandi á bandarísku sjónvarpsstöðinni MSNBC hafi verið rekinn. Orðrétt segir í fréttum bandarískra stöðva að hann hafi verið „suspended indefinetely without pay“. Það þýðir að honum hafi verið vikið frá tímabundið. Settur í launalaust leyfi. Jafnramt segir New York Times: „On Friday evening, no one at NBC suggested that Mr. Olbermann would be fired.“
Trúverðugleiki fjölmiðla er í húfi þegar óvandvirkni er liðin. Fréttaleit án undirbúnings er sömuleiðis hvimleið og skaðar viðkomandi fjölmiðil. Bókmenntaverðlaunahafi Norðurlandaráðs skensaði réttilega þáttargerðarmanneskju Rásar-2 fyrir það að vita ekki um hvað hún væri að spyrja. Útvarpskonan reiddist í viðtalinu og spurði hvort hún þyrfti háskólamenntun í bókmenntum til að geta spurt hana spurninga. Það var dónaskapur og lítilsvirðing við RÚV hlustendur. Ljóst var að útvarpsmanneskjan hafði ekki búið sig undir viðtalið, vissi ekki um þjóðerni skáldsins né söguefni bókarinnar. Fór svo að rífast við viðmælanda sinn, sem benti henni á muninn á skáldskap (fiction) og skáldsögu (novel).“
Allt er þetta rétt, Molavin. Vond vinnubrögð og hroki fara ósjaldan saman.
dv.is segir líka frá bandaríska sjónvarpsmanninum (06.11.2010): Keith Olbermann sjónvarpsmaður á MSNBC í Bandaríkjunum hefur verið vikið úr starfi tímabundið… Hér ætti auðvitað að standa: Keith Olbermann sjónvarpsmanni á …. hefur verið vikið úr starfi tímabundið.
Molalesandi sendi eftirfarandi um þennan sama sjónvarpsmann: „ Þetta má lesa á ruv.is um bandarískan þáttastjórnanda í sjónvarpi, sem var látinn hætta störfum vegna pólitískra afskipta:
„Nú hefur komið á daginn að hann studdi þrjá frambjóðendur demókrata með háum fjárframlögum í aðdraganda kosninganna og mun það hafa verið kornið sem fyllti mælinn.“Þau orð sem ég feitletra voru ekki í fréttinni þegar hún var flutt í fréttum RÚV klukkan 08.00 að morgni 6. nóvember. Þá var sagt: „ og mun það hafa verið síðasta hálmstráið“ í stað þess sem ég feitletra.“
Molaskrifari þakkar sendinguna. Ríkisútvarpið okkar allra stendur sig illa í þessum efnum.
Skildu eftir svar