«

»

Molar um málfar og miðla 463

Fréttamenn þurfa að gæta sín sérstaklega, þegar þeir nota forsetningar  með staðanöfnum. Þær lúta ekki  reglum eða rökum, heldur málvenju. Stundum eru fleiri kostir en einn í stöðunni. Listinn sem   málfarsráðunautur (líklega sómamaðurinn Árni Böðvarsson) eitt sinn gerði, er greinilega ekki lengur í notkun á fréttastofunni. Kannski er hann týndur  og tröllum  gefinn. Vel má  vera, að menn hafi talið sig kunna svo mikið, að listans væri ekki lengur þörf.

  Í   morgunútvarpi  Rásar  eitt (17.11.2010) var sagt í Hólmavík. Molaskrifari  hefur aldrei  heyrt   aðra  forsetningu notaða  en á  með   staðarheitinu Hólmavík.  Nú  má  vera að  honum skjátlist um þetta.  Fróðlegt væri að heyra hvað lesendur segja.

Hvað skyldi vera langt síðan Ríkissjónvarpið bauð okkur upp á  óperu í dagskránni ?  Það er  líklega svo langt  síðan, að  ekki einu sinni elstu menn muna  svo langt  aftur.

 Um áramót ætti  Ríkissjónvarpið að gera bragarbót og leyfa okkur  að   horfa og  hlýða á  nýárstónleikana frá  Vínarborg í beinni  útsendingu eins og  tugir milljóna í Evrópu eiga kost á. Hér  eru  Vínartónleikarnir í beinni  útsendingu látnir  víkja  fyrir Ólafi Ragnari sem  flytur   ávarp,sem tekið var upp milli hátíðanna.

 Norrænir  þjóðhöfðingjar, til dæmis Margrét Danadrottning og Ólafur Noregskonungur ávarpa  þjóðir sínar  síðdegis á gamlársdag. Hversvegna  getur Ólafur  Ragnar ekki gert það líka? Ávarp hans  á ekki að þurfa að spilla því að þjóðin sjái frábæra  tónleika  frá  höfuðborg tónlistarinnar í Evrópu í beinni útsendingu. Þannig fengi líka úrvalsefni forgang í dagskránni.  

 Ritstjóri   sjónvarpsþáttarins Landans ,sem oft er prýðilegur, er  Gísli Einarsson,fréttamaður og frægur veislustjóri. Í nafnalista  í lokin kemur fram, að   framleiðslustjóri þáttarins sé Óðinn Jónsson . Gaman  væri að vita hvaða  hlutverki  framleiðslustjóri gegnir  í þessari þáttagerð. Það liggur ekki alveg í augum uppi. Nema  búið sé að breyta  starfsheiti  fréttastjórans og  hann heiti nú framleiðslustjóri  fréttastofu Ríkisútvarpsins.

   Kastljós  Ríkissjónvarpsins hjakkar  í sama farinu (17.11.2010) og hefur breyst  í langan auglýsingaþátt. Bækur ,sem  ekki ná inn í Kiljuna, geisladiskar og fiðluverkstæði. Það er miður.

Morgunblaðið  fer (17.11.2010) nýjar leiðir í pólitískri blaðamennsku. Í nafnlausum Staksteinum er Þorsteinn Pálsson fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra hæddur sem mest má  verða. Skoðanir  hans á Evrópumálum eru Morgunblaðinu ekki þóknanlegar. Þorsteinn  er aldrei nafngreindur en hinsvegar er  birt mynd af honum í Staksteinum. Molaskrifari  telur   þessa  nýjung  Morgunblaðsins    ekki vera  til bóta, –  nema síður sé.

    Nokkrir þingmenn  Framsóknarflokksins eru  mjög  áberandi í dagskrá Útvarps  Sögu.  Það má svo sem segja að það fari ekki illa á því.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>