Fréttamenn þurfa að gæta sín sérstaklega, þegar þeir nota forsetningar með staðanöfnum. Þær lúta ekki reglum eða rökum, heldur málvenju. Stundum eru fleiri kostir en einn í stöðunni. Listinn sem málfarsráðunautur (líklega sómamaðurinn Árni Böðvarsson) eitt sinn gerði, er greinilega ekki lengur í notkun á fréttastofunni. Kannski er hann týndur og tröllum gefinn. Vel má vera, að menn hafi talið sig kunna svo mikið, að listans væri ekki lengur þörf.
Í morgunútvarpi Rásar eitt (17.11.2010) var sagt í Hólmavík. Molaskrifari hefur aldrei heyrt aðra forsetningu notaða en á með staðarheitinu Hólmavík. Nú má vera að honum skjátlist um þetta. Fróðlegt væri að heyra hvað lesendur segja.
Hvað skyldi vera langt síðan Ríkissjónvarpið bauð okkur upp á óperu í dagskránni ? Það er líklega svo langt síðan, að ekki einu sinni elstu menn muna svo langt aftur.
Um áramót ætti Ríkissjónvarpið að gera bragarbót og leyfa okkur að horfa og hlýða á nýárstónleikana frá Vínarborg í beinni útsendingu eins og tugir milljóna í Evrópu eiga kost á. Hér eru Vínartónleikarnir í beinni útsendingu látnir víkja fyrir Ólafi Ragnari sem flytur ávarp,sem tekið var upp milli hátíðanna.
Norrænir þjóðhöfðingjar, til dæmis Margrét Danadrottning og Ólafur Noregskonungur ávarpa þjóðir sínar síðdegis á gamlársdag. Hversvegna getur Ólafur Ragnar ekki gert það líka? Ávarp hans á ekki að þurfa að spilla því að þjóðin sjái frábæra tónleika frá höfuðborg tónlistarinnar í Evrópu í beinni útsendingu. Þannig fengi líka úrvalsefni forgang í dagskránni.
Ritstjóri sjónvarpsþáttarins Landans ,sem oft er prýðilegur, er Gísli Einarsson,fréttamaður og frægur veislustjóri. Í nafnalista í lokin kemur fram, að framleiðslustjóri þáttarins sé Óðinn Jónsson . Gaman væri að vita hvaða hlutverki framleiðslustjóri gegnir í þessari þáttagerð. Það liggur ekki alveg í augum uppi. Nema búið sé að breyta starfsheiti fréttastjórans og hann heiti nú framleiðslustjóri fréttastofu Ríkisútvarpsins.
Kastljós Ríkissjónvarpsins hjakkar í sama farinu (17.11.2010) og hefur breyst í langan auglýsingaþátt. Bækur ,sem ekki ná inn í Kiljuna, geisladiskar og fiðluverkstæði. Það er miður.
Morgunblaðið fer (17.11.2010) nýjar leiðir í pólitískri blaðamennsku. Í nafnlausum Staksteinum er Þorsteinn Pálsson fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra hæddur sem mest má verða. Skoðanir hans á Evrópumálum eru Morgunblaðinu ekki þóknanlegar. Þorsteinn er aldrei nafngreindur en hinsvegar er birt mynd af honum í Staksteinum. Molaskrifari telur þessa nýjung Morgunblaðsins ekki vera til bóta, – nema síður sé.
Nokkrir þingmenn Framsóknarflokksins eru mjög áberandi í dagskrá Útvarps Sögu. Það má svo sem segja að það fari ekki illa á því.
Skildu eftir svar