Það var að verðleikum að Vigdís Finnbogadóttir skyldi hljóta Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu. Innilega til hamingju, Vigdís.
Í morgunútvarpi beggja rása Ríkisútvarpsins er sagt frá helstu fyrirsögnun dagblaðanna. Umsjónarmenn Rásar tvö sáu enga ástæðu til að segja frá verðlaununum ,sem Vigdísi voru veitt(17.11.2010). Líklega utan þeirra áhugasviðs.
Í fréttum Stöðvar tvö (14.11.2010) var sagt að tilteknar reglur um bankaviðskipti hefðu ekki verið réttilega birtar þangað til í október. Þarna átti fréttamaður auðvitað að segja, … fyrr en í október. Í sama fréttatíma talaði fréttamaður (sá sami?) um bréf frá Kaupþing. Láðist að beygja heiti bankans, …bréf frá Kaupþingi. Og í þriðja sinn skal vitnað í sama fréttatíma, en þá talaði fréttamaður um sökudólga sjúkdóma, er hann var að tala um orsakir sjúkdóma. Ógott mál.
Ýmislegt fróðlegt var í Landanum (14.11.2010), ekki síst umfjöllun um rófurækt og orku sjávarfalla. Óþarft var þó að kalla Hallormsstað Hallormsstaði. Eins og hér hefur verið margsinnis sagt sér þess oft stað í fréttum, að landafræðinni var úthýst úr námsefni grunnskóla. Kvikmynd Jóns Karls Helgasonar um Álfahöllina við Hverfisgötu var prýðileg.
Stundum er íþróttafréttamönnum heldur ósýnt um að tala mannamál. Íþróttafréttamaður Ríkissjónvarpsins sagði okkur (14.11.2010) að nafngreindur knattspyrnumaður hefði klippt boltann glæsilega í netið. Allir sáu að maðurinn skoraði mark, en líklega ekki allir að hann hefði klippt boltann í netið.
Dagskrárstjórar norrænu sjónvarpsstöðvanna vita að til er sígild tónlist. Þeir bjóða áhorfendum vikulega á tónleika þar sem frábært efni í flutningi heimskunnra listamanna er á boðstólum. Þeir starfsmenn í Efstaleitinu,sem raða saman dagskrá Ríkissjónvarpsins virðast ekki vita af sígildri tónlist. Þar breytir engu þótt heimildamynd um Mendelsohn hafi slæðst inn í dagskrána á dögunum. Sígild tónlist á ekki upp á pallborðið í Efstaleitinu.
Enn er sá ósiður við lýði í símaþáttum Útvarps Sögu, að þeir sem hringja úthúða nafngreindu fólki og níða það með gífuryrðum, en þáttastjórar hreyfa engum andmælum, þegar óþverranum er ausið yfir hlustendur.
Skildu eftir svar