«

»

Molar um málfar og miðla 465

Það er mikil nýbreytni í íslenskri pólitík, að  nú skuli ekki ganga  hnífurinn  á milli þeirra sem áður  voru traustustu stuðningsmenn  vestrænnar samvinnu (Styrmis, Björns og  Davíðs) og  sumra helstu kommaleiðtoga Alþýðubandalagsins,   Ragnars Arnalds, Hjörleifs og Ragnars jarðskjálftafræðings og félaga. Bandaríkjamenn hafa löngum sagt að undarlegasta fólk sængi saman í pólitík ( e. politics makes strange bedfellows). Það á einkar vel við hjér hjá okkur líka.

Hvort þetta einkennilega bandalag   er landi og þjóð til heilla  er svo allt önnur  saga.  

Skrifað er á pressan.is (18.11.2010): Húsið var þá í niðurníslu og lögðust þau í miklar endurbætur á heimilinu.  Hér er átt við að gerðar hafi verið  endurbætur  á húsinu. Svo er það  dálítið  andkannalegt  að tala um að leggjast í endurbætur. Þar að auki leggjast menn ekki í endurbætur á heimili.   Hús er ekki heimili.  Stundum er hinsvegar talað um að leggjast í leti og ómennsku.   Sæmilegt  hefði verið að segja: Lögðu þau í miklar endurbætur.  Svo er það að láta eitthvað drabbast niður  að  láta það fara í niðurníðslu, ekki  niðurníslu.

   Hundasnyrtir á heimsmælikvarða var eitt af viðfangsefnum  föstudagskastljóss Ríkissjónvarpsins.  Þátturinn sannaði það, sem hér hefur verið sagt, að Kastljós er ekki lengur  fréttaskýringaþáttur, heldur langur  auglýsingaþáttur, þótt  athyglisvert efni slæðist með á stundum.

   Gaman var  að hlusta á Robert Christie, sagnfræðing, blaðamann og geðhjúkrunarfræðing í morgunútvarpi Útvarps Sögu (18.11.2010). Þar var á  ferðinni Skoti, búsettur í Írlandi,sem  talaði óaðfinnanlega  íslensku. Betur  máli  farinn en   sumir sem hafa  útvarpsmennsku að atvinnu. Ótrúlegur. Lýsing  hans á   fjármálahremmingum  Íra var  skýr og vel fram sett.

  Útvarp  Saga  er iðið við að halda  rangfærslum að  hlustendum.  Sagt var  (18.11.2010 og líklega daginn áður líka) að 98% þjóðarinnar hefðu hafnað  Icesave  í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það  var þjóðaratkvæðagreiðslan arfavitlausa,sem Ólafur  Ragnar efndi til þar sem  greidd  voru atkvæði um samning ,sem ekki var lengur til umræðu. Annar  samningur lá fyrir í hans  stað.

   Á kjörskrá á Íslandi voru 229.977 í þjóðaratkvæðagreiðslunni 6. mars 2010. Kjörsókn var  rúmlega 62%  eða 144.231. Þar af vildu  134.397 hafna   því sem  verið var að greiða atkvæði um  eða  58.4 %. Hvermig  geta  58%  kjósenda  verið  98% þjóðarinnar  eins og  sagt var í  Útvarpi Sögu? Þetta er  auðvitað rangfærsla, hrein ósannindi, svo talað sé skýrt.  Við sem  sátum heima  vegna þess að atkvæðagreiðslan var  rugl frá upphafi til enda,  tilheyrum sem sagt ekki þjóðinni.  Það hvarflaði ekki að m,ér að til væru menn með lagapróf úr  Háskóla Íslands sem gætu reiknað  svona  vitlaust eða  héldu slíkri að þjóðinni.

Ósannindin um 98% þjóðarinnar voru enn endurtekin í Útvarpi Sögu 19.11.2010. Það gerði frambjóðandi stöðvarinnar til stjórnlagaþings, Pétur Gunnlaugsson lögfræðingur.  Á fólk að treysta þeim,sem umgangast sannleikann með þessum hætti?  Útvarp Saga  hælir vissum  frambjóðendum til  stjórnlagaþings, en níðir aðra daginn út og daginn inn.

   Önnur ósannindi,sem haldið var að hlustendum (18.11.2010) Útvarps Sögu var, að ekkert aðgengi væri  fyrir fatlaða við inngang  húss  TR á horni Laugavegar og  Snorrabrautar. Sannleikurinn er sá  að þar eru tvö   bílastæði sérmerkt  fötluðum við  dyrnar og  þar er skábraut  fyrir hjólastóla. Þannig hefur þetta verið í mörg ár. Það er erfitt að ljúga meiru. Þá er því ítrekað haldið að hlustendum að  snittumóttaka  fyrir  fulltrúa  á Norðurlandaráðsþingi hafi  kostað  50 milljónir. Það er  er auðvitað ósatt. En  stjórnendum  finnst það líklega hljóma vel.

   Stendur ekki í góðri bók: Sannleikurinn mun gera yður frjálsa

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>