Ferðaskrifstofan Iceland Express hvetur Íslendinga til að sniðganga verslanir á Íslandi og gera jólainnkaupin í New York. Ferðaskrifstofan auglýsir í Ríkisútvarpinu (19.11.2010): Hvernig væri að versla jólagjafirnar í Bloomingdale… (Bloomingdale er þekkt stórverslun í New York). Það kemur ekki á óvart, að frá þessari ferðaskrifstofu komi auglýsingar á vondu máli , en svolítið kemur á óvart að ekki virðist lengur fólk við störf í auglýsingadeild Ríkisútvarpsins sem kann íslensku. Við verslum ekki jólagjafir. Við kaupum jólagjafir. Við getum verslað í New York. en það er afleit ambaga og Ríkisútvarpinu ósæmandi að tala um að versla jólagjafir.
Ólafur Þór Hauksson segir rannsóknina miða vel, sagði fréttamaður Ríkisútvarpsins í kvöldfréttum (19.11.2010). Sami fréttamaður sagði: Tugir fyrrverandi starfsmenn Glitnis…. Fréttamenn, sem heyra ekki svona villur í máli sínu eiga ekki að segja okkur fréttir. Á hvað skyldi rannsóknin hafa verið að miða ? Óboðlegt málfar.
Þegar þessu verkefni lýkur , vantar föngunum meira að gera , sagði fréttamaður Ríkissjónvarpsins á Suðurlandi í kvöldfréttum (19.11.2010). Þágufallssýki er læknanlegur sjúkdómur. Kannski ætti málfarsnautur að bregða sér í læknishlutverk, nema hið alræmda umburðarlyndi banni.
Birgitta Haukdal var fín og falleg í Hringekju Ríkissjónvarpsins (20.11.2010). Hún var líka næstum það eina sem var gott við þáttinn. Það er reyndar fyndið að þetta skuli heita skemmtiþáttur. Ég tek læk á þetta, sagði svo umsjónarmaðurinn.
Af þremur kvikmyndum laugardagskvöldsins í Ríkissjónvarpinu eru tvær endursýndar, sé gluggað í prentaða dagskrá í blöðunum. Makalaust og fyrir neðan allar hellur.
Og svo í lokin svolítið um Útvarp Sögu aldrei þessu vant! Molaskrifari ætlaði að hlusta á Sigurð Þ. Ragnarsson í Leið og beið. Enginn Sigurður. Bara auglýsing þar sem ungt barn (Hvernig má nota börn í auglýsingum?) er látið segja: Velkomin á fætur með Útvarpi Sögu. En það virtist enginn kominn á fætur þar á bæ. Það var ekki fyrr klukkuna vantaði tuttugu mínútur í átta að hlustendur heyrðu ómþýða og geðþekka morgunrödd útvarpsstjórans. Kannski svolítið svefndrukkna. Útvarpsstöðvar eiga að standa við auglýsta dagskrá og biðja hlustendur afsökunar, ef dagskrá raskast.
Skildu eftir svar