«

»

Molar um málfar og miðla 469

Í sexfréttum  Ríkisútvarpsins (23.11.2010)  sagði talsmaður  Íslandspósts, ekki einu sinni heldur tvisvar:  Ef fólki vantar…. Þegar fyrirtæki senda  fólk í  fjölmiðla á að velja   fólk,sem  er sæmilega talandi.

   Molaskrifari hnaut um eftirfarandi fyrirsögn í Morgunblaðinu (23.11.2010): Hagsmunir sjóðsins  rekast á. Þetta hljómar ekki rétt í eyrum Molaskrifara. Því ekki er sagt á hvað hagsmunirnir rekast.Í fréttinni segir: „ Þannig gætu hagsmunir sjóðsins, t.d. af háu íbúðaverði og góðri stöðu lántakenda rekist á tækifæri hans til að kaupa húsnæði inn í leigustarfsemina“. Að tala um að kaupa  húsnæði inn í leigustarfsemina er ekki gott  orðalag í  umsögn Seðlabanka Íslands um  lagafrumvarp.  En hvað segja  lesendur um fyrirsögnina?

 Kastljós  kvöldsins var athyglisvert.  Einkum  vegna  greiningar Helga Seljans á  ótrúlegu  braski og  hlutverki bankanna í þeim leik. Maður varð eiginlega kjaftstopp. Kvótakerfið  elur af sér  alls kyns  spillingu út um allar trissur. Ef hlutirnir eru í lagi og allt  heiðarlegt hversvegna þarf þá að  stofna óteljandi fyrirtæki? Eitthvað er verið að fela. Slóðir og fé?  Athyglisvert  var líka viðtalið  við  Geir Sigurðsson forstöðumann  Asíuseturs Háskóla Íslands um ástandið á Kóreuskaga. Geir nam í Kína og  er fróður um þennan heimshluta.  Molaskrifari hefur tvisvar heimsótt höfuðborg Norður Kóreu, Pyongyang. Ömurlegur og ógleymanlegur  staður. Einnig  var fróðlegt að heimsækja Panmunjon   á norðurmörkum Suður Kóreu og  kínversku borgina Dandong við  Yalufljót, sem  skilur að Norður Kóreu og Kína. Árlega koma út á  ensku  fjölmargar bækur um þetta einkennilega ríki. Þær  einkennast  fyrst og fremst af því að þar eru menn að geta í eyðurnar.

  Það fer ekki hjá því  þegar maður hefur  aðgang að beinum útsendingum  frá  Alþíngi og úr  neðri málstofu breskas  þingsins að maður  beri  þessar  tvær  stofnanir saman. Sá samanburður er Alþíngi Íslendinga ekki í hag. Það sem  sýnt var í sjónvarpsfréttum (23.11.2010) minnti   fremur  á köll  götustráka  en  virðulega  löggjafarstofnum. Of   margar   ræður  úr  ræðustóli Alþingis  eru gaspur og gaul . Milli kosninga keppa þingmenn um hylli fjölmiðlanna.

  Merkilegt að það skyldi teljast fréttnæmt (23.11.2010) að  dómsmálaráðherra ætlaði ekki að hafa afskipti  af máli sem nú er   til  meðferðar hjá  dómstólum. Það hefði verið  frétt og  ekki lítil ef  ráðherra  hefði farið að  ráðskast með  störf  dómstóla í einstökum málum. Samþykkt  flokksráðsfundar VG var þessvegna ótrúlega vitlaus. 

  Hvað í ósköpunum er forseti Íslands að þvælast  til Abu Dhabi, þótt verið sé að taka  nýtt stórhýsi í notkun þar ? ( Það er örggulega ekki verið að vígja húsið eins og  sagt  er í fréttum). Ef  íslenska  ríkið  borgar  þessa ferð, er það  rangt. Ef  forseti er að þíggja  boð auðmanna úr   hópi  vina sinna , er það líka rangt.  Þjóðhöfðingi Íslands hefur þarna ekkert að gera. Hefur hann  ekkert  lært af reynslunni við að nudda sér utan í auðmenn af ýmsu þjóðerni ?  Greinilega ekki. Kannski er hann þó betur kominn þarna en á leynifundum á   Bessastöðum um myndun  svokallaðrarar neyðarstjórnar. Og  svo líður  honum  náttúrulega  betur innan um  ríka  fólkið en hjá kreppukotungum Íslands.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>