«

»

Molar um málfar og miðla 490

Fjarskiptafyrirtækið Síminn hefur ekki mikið álit á eldri kynslóðinni, öfum og ömmum. í auglýsingu frá Símanum eru auglýstar ýmsar gerðir   símtækja: Allt  frá afasímum til snjallsíma. Merkingin er: Allt frá hinu sára einfalda til hins flókna og fullkomna.  Snjallsímar eru  sem sagt ekki  fyrir  afa. Þeir ráða  líklega ekki við að nota þá.  Neðst í auglýsingunni er svo mynd af símtæki  fyrir  þá sem  ráða  bara við það einfaldasta (Doro Phone Easy 338) og  sagt að slíkur sími sé  kjörinn fyrir afa og ömmu.    Hversvegna   þarf síminn að gera lítið úr  þeim  sem komnir eru yfir miðjan  aldur ?  Síminn ætti að  endurskoða þessa auglýsingu. Það mætti  til dæmis auglýsa einfalda síma fyrir þá sem það vilja án þess að tengja  slíka síma  sérstaklega  við eldri borgara samfélagsins.  

  Fínt hjá  Boga Ágústssyni að biðja hlustendur afsökunar  á því að  tíufréttir Ríkissjónvarpsins (20.12.2010) voru á eftir áætlun.  Sjálfsögð kurteisi við   áhorfendur. Molaskrifari  var  nýbúinn að hugsa sem svo: Ekki  stillir maður úrið sitt eftir  upphafi frétta eins og  hægt er hjá BBC og   flestum stöðvum.  Það er  svo sem lítið við því að segja í auglýsingaflóðinu fyrir  jólin þótt  tímamörk  dagskrár raskist eitthvað, – en það er sjálfsögð  kurteisi að biðjast afsökunar á því.

  Það er líklega erfitt að vera auglýsingastjóri Morgunblaðsins þessa dagana. Vakna  við það á  hverjum morgni að Fréttablaðið er bólgið af auglýsingum, helmingi þykkara en Mogginn,sem er bara fullur af minningargreinum. En  auglýsingarnar í Fréttablaðinu eru að sjálfsögðu allar frá Baugsfyrirtækjum,  eins og til  dæmis að taka: Símanum, Landsbankanum,Iceland Express,B&L Ingvari Helgasyni, Húsasmiðjunni,Sinfóníuhljómsveit Íslands, Heimilistækjum,Nettó, Rúmfatalagernum  og Gilberti úrsmið. Eru þetta annars ekki örugglega Baugsfyrirtæki að auglýsa í Baugsmiðli?  Molaskrifari er ekki svo gjörkunnugur viðskiptalífinu að hann viti það með fullri vissu.

Lítið í fréttum? Úr  mbl.is (20.12.2010):Jeppi var dreginn í burtu eftir árekstur tveggja bíla á mótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar klukkan rúmlega hálf fimm í dag. Sjúkrabíll kom á vettvang, en ökumaður annars bílsins fann fyrir minniháttar meiðslum.

  Morgunblaðið er eini fjölmiðillinn, sem ræktar sambandið við Vestur Íslendinga. Það er virðingar- og þakkarvert. Blaðið flytur reglulega fréttir úr Íslendingabyggðum í Norður  Ameríku. Þær eru vel þegnar hjá mörgum. Það er öðrum fremur Steinþór Guðbjartsson blaðamaður, sem  hefur þessi fréttaskrif á sinni könnu, enda þaulkunnugur mönnum og málefnum vestra.  Steinþór og Moggi eiga þakkir skildar fyrir að styrkja þessi mikilvægu menningartengsl.

 Í fréttum Stöðvar tvö (20.12.2010) var talað um að vera ósáttur með.  Nú má vera að mörgum finnist þetta  eðlilegt orðalag. Molaskrifara finnst þó að  betra hefði verið að segja: Ósáttur við.

 Það er ekki mjög  lipurlega orðað, þegar  talað er um skort á upplýsingaflæði  eins og gert  var í Ríkisútvarpinu (20.12.2010). Betra væri að tala um  skort á upplýsingum eða lélegt upplýsingaflæði.

   Nú hyggst Molaskrifari  gera hlé á skrifum fram yfir  hátíðar, og taka upp þráðinn að  nýju í byrjun nýs árs.

Molaskrifari óskar lesendum sínum gleðilegra jóla og  farsældar á nýju ári og þakkar  vinsamleg orð og góðar ábendingar  frá velunnurum   Málfarsmolanna.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>