«

»

Molar um málfar og miðla 491

Molaskrifari óskar lesendum gleðilegs   og  gæfuríks árs og þakkar   ánægjuleg samskipti á liðnu ári.

     Þótt ekki hafi verið skrifaðir Molar frá því fyrir  jól, er ekki þar með sagt að skrifari hafi hætt að lesa eða hlusta! Verður því hér á  næstunni  vikið að ýmsu sem  fyrir augu   og eyru bar í  kring um hátíðarnar.

   Það er hvimleiður siður sumra ræðumanna  að vitna mikið í sjálfa sig. Forseti Íslands féll í þá  gryfju, er hann flutti  áramótaávarp á Nýársdag. Íslenska er ekki hin sterka hlið forseta Íslands og hefur aldrei verið.  Í ræðu hans  heyrðum við hann segja:  – hreinnrar orku,(hreinnar orku) nú sækjast  fjöldi ríkja eftir  (nú sækist fjöldi ríkja eftir). Þetta var reyndar  rétt   í handriti ræðunnar,sem  birt er á heimasíðu forsetaembættisins.  Ambögurnar komu frá eigin brjósti ræðumanns.  Þá  fellur eftirfarandi orðalag í ræðunni ekki að smekk Molaskrifara: … þegar Jón Sigurðsson fór að vestan með tignarfjöll Arnarfjarðar greypt í sálu sinni.  Betra  hefði verið: … með  tignarfjöll  Arnarfjarðar  greypt í sálu sína.  

   Ríkisútvarpið er nú  farið að kalla sig  „samkomuhús þjóðarinnar“. „Íþróttahús þjóðarinnar“ væri ef til  vill meira  réttnefni. Nú er hafin á besta  tíma kvölds  sýning  þáttaraðar úr handaboltasögunni. Boðaðir  eru sex þættir. Þetta efni er sjálfsagt góðra  gjalda vert, en það á ekki að gera íþróttaáhugamönnum svo hátt undir  höfði  að sýna svona upprifjum á  besta tíma kvölds. Þetta sýnir enn og  aftur  að íþróttasjónmarmið  eru allsráðandi  í Efstaleiti , þegar  kemur að samsetningu dagskrár og  ráðstöfun takmarkaðra fjármuna  til  dagskrárgerðar.

Í sexfréttum  Ríkisútvarps  á  Nýársdag  þar sem  sagt var frá ávarpi forsetans ,sagði fréttamaður Ríkisútvarps: Sú ákvörðun Ólafs Ragnarssonar um að …  Þarna var forsetningunni um   algjörlega ofaukið.Nægt  hefði að segja:  Sú ákvörðun  Ólafs Ragnars  Grímssonar að…

Fréttamönnum Stöðvar tvö er  misvel gefið að vanda málfar sitt.  Hún skrifaði grein í Morgunblaðinu,  sagði fréttamaður (26.12.2010). Hann hefði annaðhvort átt að segja: Hún skrifaði grein í Morgunblaðið , eða: Hún birti grein í Morgunblaðinu.

 Það kemur fyrir að farið er rangt með orðatiltæki sem eru  föst í málinu. Á Stöð tvö var  fyrir jólin talað um að telja  hugarhvarf. Rétt hefði   verið að tala um að telja  hughvarf, – fá einhvern ofanaf  einhverju, sem hann hyggst gera.Fá hann til að hætta við ætlan sína.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>