Yfirdrifið af snjó í Hlíðarfjalli, segir í fjögurra dálka fyrirsögn á baksíðu Morgunblaðsins (14.011.2011) Molaskrifari er á því að betri fyrirsögn hefði verið: Nægur snjór í Hlíðarfjalli.
… voru síðan dæmdir í gæsluvarðhald til 25. og 21. janúar næst komandi… Af pressan.is (14.01.2011). Það er ekki svo, að menn séu dæmdir í gæsluvarðhald. Kveðinn er upp gæsluvarðhaldsúrskurður. Þetta eiga þeir sem skrifa fréttir að hafa á hreinu.
Blæða ekki hjörtu landsmanna? Spyr bloggari (14.01.2011) . Sögnin að blæða er hér ópersónuleg, – einhverjum blæðir, blóð rennur úr einhverjum. Þessvegna ætti að standa hér: Hjörtum landsmanna blæðir. Ég skal blæða. Er hinsvegar slangur , eða óformlegt mál. Ég skal borga. Ég blæði.
Stjarna er fædd, sagði kynnir í Kastljósi Ríkissjónvarpsins (14.01.2011). Enskusletta þýdd á íslensku. Geturðu sett fingurinn á það? Sagði sami sjónvarpsmaður. Líklega liggur enska betur fyrir þessum sjónvarpsmanni en íslenska.
Vissulega starfa íþróttafréttamenn hjá Ríkisútvarpinu, sem eru ágætlega máli farnir en það gildir ekki um þá alla. Ekki þann sem sagði í sexfréttum Ríkisútvarpsins (14.01.2011): Aðgangseyrir fyrir almenning á upphafshátíðina er ókeypis. Aðgangseyrir er ekki ókeypis. Aðgangur er ókeypis. Þetta er ekkert mjög flókið.
Molaskrifari heyrði aðeins í Útvarpi Sögu á laugardagsmorgni (15.01.2011). Það staðfesti ,að enn er þar verið að ljúga að þjóðinni. Þar var á ferðinni verðbréfasalinn frá New York sem fullyrti enn einn ganginn að 98% þjóðarinnar hefðu verið á móti Icesave samningnum,sem fór í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það voru 98% þeirra sem greiddu atkvæði. Allt annar handleggur. Kannski kann maðurinn ekki á prósentur. Það eru þjóðhættulegir miðlar, sem ljúga að hlustendum.
Skildu eftir svar