Jafnmikið regnvatn féll til jarðar… var sagt í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins (13.01.2011). Betra hefði verið að segja: Jafnmikið rigndi.. eða, úrkoma var jafnmikil og … Þetta með regnvatnið var svo endurtekið í sjöfréttum Ríkissjónvarpsins, enda er um að gera gjörnýta góðar setningar. „Regnið þungt til foldar fellur, fyrir utan gluggann minn“, segir í alkunnum fyrriparti.
Fréttamaður Stöðvar tvö (13.01.2011) talaði ítrekað um fræðamenn, þegar átt var við fræðimenn, eins og þulur réttilega sagði í inngangi fréttar.
Molavin spyr: „Er nafnorðið *húsleit* til í fleirtölu? Svo virðist mega ætla, því allir fjölmiðlar landsins hafa í dag fjallað um „húsleitir“ vegna meintra brota yfirmanna í Landsbankanum, þeim gamla. Ég hef vanizt því að nota orðið í eintölu, og þá um húsleit á fleiri stöðum en einum ef svo bar undir. Síðustu daga hefur verið gerð leit að týndum manni – á mörgum stöðum, ekki leitir. Vonandi kemur hann þó í leitirnar.“ Molaskrifari telur Molavin hafa rétt fyrir sér um þetta sem og margt annað.
…og súrmaturinn hefur verið að lagast í tvo til þrjá mánuði, sagði fréttamaður Ríkissjónvarps (13.01.2011). Hann átti við að súrmaturinn hefði verið að verkast, taka í sig súrinn úr sýrunni eða mysunni,sem hann er látinn liggja í. En auðvitað má segja sem svo að innmatur lagist við að verða settur í súr.
Það er einstaklega hallærislegt að láta fréttamann norpa í kuldagalla fyrir utan húsakynni Sérstaks saksóknara við Skúlagötu og segja þaðan stuttar fréttir, eins og gert var í báðum fréttatímum Ríkissjónvarpsins (13.01.2011). Þetta undirstrikar að í þessu tilviki var meiri áhersla lögð á umbúðir en innihald.
Það vefst dálítið fyrir ráðamönnum að skýra hversvegna þarf að leggja á sérstaka vegatolla í viðbót við vegaskatta sem við greiðum í bensín- og olíuverði. Vegaskattana á bensín á að nota til að kosta vegaframkvæmdir. Það er ekki gert nema að litlu leyti,. Þeir renna beint í ríkishítina. Hina almennu tekjuhít. Enda sagði innanríkisráðherra, að þetta væru sértækar aðgerðir vegna sérstakra aðstæðna. Og svo er ætlast til að við skiljum þetta. Ráðherrar eiga að tala mannamál.
Fram kom í fréttum Ríkissjónvarps (13.01.2011)að það sem einu sinni hét landlega er nú kallað brælustopp. Landlega er reyndar langtum fallegra orð.
Skildu eftir svar