«

»

Molar um málfar og miðla 501

 Þeir eru engir  aukvisar okkar menn í  Landhelgisgæslunni. Það sást vel,  þegar  gæsluþyrla sótti   sjómann um borð í erlent flutningaskip  hálfs annars  tíma flug  undan  Reykjanesi í vondu veðri og stórsjó. Frábærar myndir í  fréttum Ríkissjónvarpsins (13,01.2011) Það er okkur til háborinnar skammar, að  Landhelgisgæslan  skuli ekki  geta verið með   nægan þyrlukost til  björgunarstarfa vegna niðurskurðar. Það  mætti  alveg hugsa sér að skerða  framlög  til stjórnmálaflokka svo bæta  mætti einni þyrlu á vaktina. Það gæti bjargað mannslífum. Það fara engin mannslíf forgörðum þótt klipið sé aðeins af flokkunum.

  Hallgrímur Indriðason  fær hrós fyrir að segja í tvöfréttum Ríkisútvarpsins (12.01.2011), að fundur hafi  verið  haldinn í Stjórnarráðshúsinu. Of margir  fréttamenn segja  fundi  haldna í  stjórnarráðinu, þegar átt er  við Stjórnarráðshúsið  við Lækjartorg.   Stjórnarráðið er samheiti yfir öll ráðuneytin. Kristján Sigurjónsson leiðrétti rangan texta í  fréttalestri klukkan  sjö  Í Ríkisútvarpinu. (13.01.2011). Hann fær  líka   hrós fyrir það. Hann var greinilega bæði að hugsa og hlusta  meðan hann las. Fínt.

  Næturútvarp  Rásar eitt er nú á nýjum brautum. Þar var áður útvarpað  sígildri tónlist án  kynninga    frá miðnætti til klukkan 06 40  að morgni. Fyrst   var tónlistin kynnt. Svo var því hætt í sparnaðarskyni, að sagt var. Líklega þurfti íþróttadeildin  meiri peninga. Þetta hefur  oft verið gagnrýnt í  Molum, enda  algjört  virðingarleysi við   höfunda, flytjendur og   hlustendur að  flytja  svona tónlist í  síbylju.Eins og að selja landakort án örnefna.  Nú er breyting orðin á.  Endurflutt er menningarefni af ýmsu  tagi frá  deginum áður. Það er  mjög til bóta. Margt af þessu efni er prýðilegt og þolir endurflutning.

Tryggvi M. Þórðarson kom að máli  við Molaskrifara og sendi  síðan  eftirfarandi:

„Læt hér fylgja með textann sem ég minntist á við þig:

Íhugum eftirfarandi setningar og gerum okkur í hugarlund að kosningar séu í nánd:

Tökum þátt og bindum enda á stjórnina
Tökum þátt í kosningunum og bindum endi á stjórnina.
Báðar eru setningarnar réttar, en þær lýsa tveimur ólíkum hlutum.
Fyrri setningin þýðir:

Tökum þátt úr reipi/kaðli og bindum stjórnina með honum.

Sú seinni þýðir:

Með þátttöku okkar í kosningunum skulum við skipta um stjórn.“  Kærar þakkir fyrir þetta Tryggvi.

Eins og áður var vikið að í Molum var  ítrekað sagt í Ríkisútvarpinu, að Kaupþing hefði verið eigandi færeyska bankans Eik.  Það var rangt. Þetta var aldrei leiðrétt svo Molaskrifari heyrði, en hinsvegar var þetta tekið úr frétt um bankamál í Færeyjum. Enn eitt dæmið um óvönduð vinnubrögð ríkisfréttastofunnar í Efstaleiti.  Þetta var tekið út úr fréttinni eftir að hringt hafði verið til fréttastofunnar og sagt að Kaupþing hefði aldrei átt Eik banka.

  Leiðarar Morgunblaðsins eru í vaxandi mæli árásir á nafngreinda einstaklinga (12.01.2011) sem leyfa sér þá ósvinnu að  hafa skoðanir,  sem  eru Morgunblaðinu  ekki þóknanlegar. Í stjórnmálaskrifum leggur Morgunblaðið einstaklinga í einelti  og gengur stundum lengra en gamli Þjóðviljinn, málgagn kommúnista, gerði þegar ofsóknirnar  og eineltið gegn Bjarna Benediktssyni og Guðmundi Í. Guðmundssyni gekk hvað lengst. Þetta eru sömu  aðferðir og  íslenskir kommúnistar lærðu í  sérstökum byltingarskólum í Sovétríkjunum eins og  segir frá í gagnmerkri nýrri bók Þórs Whiethead.   Það er ekki leiðum að líkjast hjá Mogganum.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>